Bláar málningaragnir valda stíflum í heitavatnskerfum hjá viðskiptavinum NorðurorkuKaffid.is fékk aðsenda mynd af stíflaðri síu úr blöndunartæki sem er full af blárri málningu frá hitamælinum.

Bláar málningaragnir valda stíflum í heitavatnskerfum hjá viðskiptavinum Norðurorku

Komin hafa upp tilvik um stífluð blöndunartæki og síur hjá fólki á Akureyri vegna uppsetningu nýrra sölumæla frá Norðurorku. Þetta staðfestir Norðurorka í samtali við Kaffid.is. Nýir hitaveitumælar, sem sinna bæði neysluvatni og miðstöð, voru settir upp víða á Akureyri í haust sem nú hefur komið í ljós að eru gallaðir og uppsetningu þeirra hætt í kjölfarið. Tölur um hversu marga mæla er búið að setja upp er í skoðun en gera má ráð fyrir að búið sé að skipta um töluvert marga mæla í húsum á Akureyri.

Þessir nýju hitamælar eru málaðir að innan með blárri málningu sem heita vatnið leysir upp hægt og rólega. Málningin sem leysist upp festist svo í kjölfarið í blöndunartækjum og síum og stíflar þau eða situr fast í lögnum fólks. Þeir sem eru með neysluvatnsvarmaskipta fá ekki málningu í lagnirnar en þess í stað festist málningin í varmaskiptum. Norðurorku hefur borist tvær formlegar kvartanir en heyrst hefur að fleiri tilvik hafi komið upp en fólk ekki lagt fram kvörtun enn sem komið er.

„Tilfellið er að við höfum fengið tvær ábendingar um þetta og hættum í kjölfarið að setja upp þessa mæla. Við erum að bíða núna eftir niðurstöðum frá framleiðanda, þangað til það liggur fyrir verða ekki settir fleiri svona mælar upp. Manni fannst þetta bara ótrúlegt en þetta er í mjög góðu ferli innan húss núna,“ segir Gunnur Ýr Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Norðurorku, í samtali við Kaffið.

Annað dæmi um stíflað blöndunartæki úr heimahúsi.

Mælarnir, sem Norðurorka keypti eftir útboð, stóðust þær prófanir Norðurorku sem þeir þurfa alltaf að fara í gegnum áður en útboðið er samþykkt en eftir að þessar tilkynningar bárust var uppsetningu mælanna hætt strax. Málið er nú í skoðun hjá Norðurorku og beðið svara frá framleiðanda mælanna.

UMMÆLI

Sambíó