Blakvígið á AkureyriMateo og Mason í viðtali hjá Skúla Braga í Taktíkinni á N4.

Blakvígið á Akureyri

Bæði lið karla og kvenna hjá KA í blaki eru deildar- og bikar-meistarar 2019. Þegar að þetta er skrifað eru bæði lið í harðri baráttu við HK í úrslitaeinvíginu um sjálfan Íslandsmeistara-titilinn. Með sigrum gætu bæði lið því unnið þrennuna eftirsóttu, en karlalið KA gerði það einmitt á síðasta tímabili.

„Auðvitað þarf að vinna fyrir því en allt undir þrem titlum eru vonbrigði fyrir okkur,“ sagði Mason Casner leikmaður meistaraflokks karla hjá KA í blaki í viðtali hjá Skúla Braga í Taktíkinni, en viðtalið var tekið áður en úrslitaeinvígið á mót HK fór af stað. Liðsfélagi hans og þjálfari meistaraflokks kvenna hjá KA í blaki, Miguel Mateo Castrillo var þá einnmig mættur með honum í settið.

Breytt andrúmsloft

Kvennalið KA lenti í neðasta sæti á síðasta tímabili þar sem liðið vann aðeins tvo leiki í deildinni. Núna á þessu tímabili þá töpuðu þær aðeins tveim leikjum í deild, sem verður að teljast frekar magnaður viðsnúningur. „Við vorum  sammála um að það þyrfti að breyta til hjá stelpunum. Við vildum koma þeim á hærra plan. Ég sem þjálfari vildi vinna þetta af meiri fagmennsku með krefjandi æfingum og ég tel það vera að virka. Það voru nokkrir leikmenn sem vildu ekki spila með liðinu á síðasta tímabili eins og t.d. Elma og Birna. En þær tóku eftir þessu breytta andrúmslofti kringum liðið  og drógu því aftur fram skónna og ákváðu að taka slaginn með liðinu á þessu tímabili,“ sagði Mateo.

Stóra breytingin

Það voru ekki bara eldri leikmenn sem tóku eftir þessu breytta andrúmslofti heldur liðið sem heild. „Þær tóku eftir því að þetta virkaði og þá mættu þær með það viðhorf á æfingar, að nýta þær til að læra og bæta sig. Síðan bættum við líkamsrækt inní planið, afþví að það er nauðsynlegt að vera í góðu formi til þess að vera atvinnumaður í blaki eða ná því besta fram. Þegar að þú byrjar síðan að vinna leiki þá viltu meira. Við vorum ekki að vinna til einskis. Þær fundu árangur erfiðisins og vildu meira og meira og meira. Það er stóra breytingin frá því í fyrra,“ sagði Mateo.

Háleit markmið

Karlaliðið hefur verið mjög sigursælt síðustu ár og vann alla þrjá titlana á síðasta tímabili. „Við erum ekki sama lið núna og þá. Í ár er meiri breidd í liðinu. En tilfinningin er ennþá til staðar. Eftir síðasta tímabil þá áttum við alveg von á því að halda áfram á sigurbraut í ár. Þannig að þegar að við sem vorum að spila á síðasta ári komum saman aftur þá vissum við hvað við vildum. Síðan voru nýju leikmennirnir eins og Mateo og Nassini fljótir að komast á sömu bylgjulengd varðandi markmiðin,“ sagði Mason leikmannahópinn sem virðist vel samstilltur.

Frábær tími

Mason kom til KA frá Bandaríkjunum en Mateo sem er spænskur kom frá Neskaupsstað þar sem hann spilaði með Þrótti Neskaupsstað á síðasta tímabili. „Ég man þegar að ég sagði fjölskyldunni minni að ég væri að fara til Neskaupsstaðar. Þá fóru þau beint á Google Maps að skoða bæinn og spurðu síðan strax „Miguel veistu hvert þú ert að fara? Þetta er svo lítið að þú átt eftir að missa vitið.“ En þetta var frábær tími. Íslendingar eru frábærir og okkur leið eins og hjá fjölskyldu. Mér líður mjög vel hérna og þessvegna er ég hér á mínu öðru tímabili,“ sagði Mateo sem tók með sér tvo leikmenn kvennaliðsins frá Neskaupsstað, annarsvegar kærustuna sína og hinsvegar kærustu Mason. Það er alveg ljóst að þetta var mikil blóðtaka fyrir lið Þróttar, en kvennaliðið þar sigraði deildina á síðasta tímabili en hefur ekki gengið eins vel í ár. „Núna erum við hér og erum að láta til okkar taka. Þær eru báðar mikilvægir leikmenn fyrir kvennaliðið. Þannig að þetta var stór samningur fyrir KA,“ sagði Mateo

Góðar viðtökur

„Þetta var svipað hjá mér. Ég var ekki í skóla, en hafði þó spilað blak í háskóla. Ég var að reyna að móta hvaða skref ég ætti að taka næst. Þá fékk ég tölvupóst með boði um að koma hingað að spila. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um. Þetta var mjög spennandi tækifæri. Það hafa allir á Akureyri tekið vel á móti mér. Tilfinningin að búa hér er ólýsanleg. mjög friðsælt og allir mjög viðkunnalegir,“ sagði Mason um flutninginn til landsins.

Sögulegur árangur

Lið KA fóru út og kepptu á móti liðum frá öðrum löndum á NEVZA en árangurinn til þessa á slíkum mótum hafði ekki verið neitt sérstakur. „Við erum allavega að reyna að gera Akureyri meira áberandi í Evrópu. Við spiluðum á NEVZA sem er Evrópumót og þar náðum við mjög góðum árangri, í raun sögulegum því Ísland hefur aldrei náð að vinna sett á þessu móti,“ sagði Mateo og bætti síðan við: „Áður fyrr var það þannig að lið sem að mættu íslenskum liðum litu á leikina sem vináttuleiki. Við getum bara sett hvern sem er inná og unnið mjög auðveldlega. En núna var það alls ekki þannig. Nú töldu lið sig ekki heppin að hafa dregist á móti KA. Þannig að munurinn er mikill og vonandi náum við að halda þessu við.“

Framtíðin er björt

„Við erum með mjög öfluga leikmenn í liðinu og þessvegna erum við að vinna þessa titla. En við erum heppnir afþví að núna erum við líka með þessa yngri leikmenn sem eru gríðarlega efnilegir. Þannig að við erum með góða blöndu af eldri og yngri leikmönnum, þannig að þessir yngri ættu að geta vaxið og haldið áfram að vinna þessa titla í framtíðinni,“ sagði Mateo um leikmannahópinn hjá karlaliði KA. 

UMMÆLI

Sambíó