NTC netdagar

Blómlegt samfélag = Öflugt atvinnulíf

Hilda Jana Gísladóttir skrifar:

Við flest sem höfum þá reynslu að reka fyrirtæki eða heimili, vitum að það eru yfirleitt bara tveir valmöguleikar í stöðunni þegar okkur skortir fjármagn, annað hvort að skera niður útgjöld eða auka tekjurnar. Rekstur sveitarfélaga er ekki ólíkur fyrirtækjum í þeim efnum,  þó að sjálfsögðu sé á þeim sá grundvallar munur að sveitarfélagið er ekki rekið með það að markmiði að skapa arð til eigenda sinna líkt og í fyrirtækjarekstri, nema þá í formi þjónustu og manneskjulegs samfélags.

Þurfum að vera alveg grjóthörð

Nú í kosningabaráttunni hef ég fundið verulega fyrir því að víða skortir fjármagn í rekstri sveitarfélagsins og ekki hef ég séð svigrúm til mikillar hagræðingar. Þetta þýðir einfaldlega að við verðum að leggja áherslu á að auka tekjurnar. Baráttan um sanngjarna skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga í þágu almannaþjónustunnar er eitt stærsta eintaka hagsmunamál bæjarfélagsins. Ég trúi því að flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga sé af hinu góða. Hins vegar er gjörsamlega óþolandi að standa í stöðugri baráttu við ríkisvaldið um sanngjarna fjármuni til að standa undir lögbundnum verkefnum, en það verður bæjarstjórn einfaldlega að gera og vera alveg grjóthörð í þeirri baráttu.

Samkeppnishæfni skiptir máli

Tekjur sveitarfélagsins koma hins vegar ekki aðeins frá ríkinu. Öflugt atvinnulíf á svæðinu er algjör grunnforenda þess að tekjur sveitarfélagsins aukist og íbúum fjölgi. Samfélagið þarf á öflugu atvinnulífi að halda og atvinnulífið þarf á öflugu samfélagi að halda. Ég heyri á atvinnurekendum hér í bæ að þeir upplifi að bæjarfulltrúar hafi ekki haft áhuga á þeirra starfi og þörfum, nema þá kannski korter í kosningar. Fyrirtæki á svæðinu eru að glíma við fjölmargar áskoranir. Staða krónunnar er mörgum iðnfyrirtækjum og fyrirtækjum í útflutningi mikið áhyggjuefni. Hár flutningskostnaður hefur áhrif á framleiðslufyrirtæki á svæðinu. Sala á gistingu í heimahúsum hefur áhrif á stöðu gistiheimila og hótela á svæðinu. Öflugt og hagkvæmt innanlandsflug og beint millilandaflug til útlanda skiptir sköpum bæði fyrir íbúa og atvinnulíf. Tryggja þarf flutning á nægri raforku inn á svæðið hvað varðar afl, gæði og afhendingaröryggi til að mæta þörfum íbúa og tryggja eðlilegan vöxt atvinnulífsins. Bæjarstjórn Akureyrar þarf að mínu mati að standa vörð um atvinnulífið á svæðinu með mun öflugri hætti en áður og ekki hika við að stíga fram í sviðsljósið í pólitískri umræðu á landsvísu í málefnum er varða samkeppnishæfni fyrirtækja og landsbyggðanna í heild sinni.

Hilda Jana Gísladóttir, 1. sæti á lista Samfylkingarinnar

UMMÆLI