Borgin mín – Álaborg

Borgin mín – Álaborg

a-aamagg

Ágústa Margrét


Borgin mín er liður á Kaffinu. Hér komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni fengum við Ágústu Margréti Úlfarsdóttir, Siglfirðing til að kynna okkur fyrir Álaborg.

– Hvers vegna býrð þú í borginni? Af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Ég flutti til Álaborgar fyrir rúmlega tveimur árum síðar. Planið var að finna vinnu og safna smá pening, og finna svo eitthvað spennandi framhaldsnám. Hlutirnir fóru ekki alveg eins og þeir voru planaðir, því það er mjög erfitt að fá vinnu í Álaborg, sérstaklega ef þú ert útlendingur og talar ekki dönskuna reiprennandi. Ég verð að viðurkenna að eftir sjö ára dönskunám á Íslandi, skildi enginn hvað ég var að segja, og ég skildi ekki orð af því sem sagt var við mig. Á endanum fékk ég fulla vinnu á kaffihúsi í miðbænum, en er enn að leita mér af framhaldsnámi sem mig langar í.

– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? Er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?
Ég bý í þriggja herbergja íbúð með vinkonu minni, ekki svo langt frá miðbænum. Verðið á leigumarkaðnum hér í Álaborg er svipað og á Akureyri myndi ég segja. Það fer auðvitað allt eftir því hvar íbúðin er staðsett, því nær miðbænum, því dýrara. Ef þú ert í námi, geturðu sótt um íbúð á vegum skólans, og þær eru ódýrari en á almennum leigumarkaði. Það er mun ódýrara að leigja hér, heldur en til dæmis í Árósum eða Kaupmannahöfn.

– Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Persónulega finnst mér ekki dýrara að lifa í Álaborg, miðað við Ísland. Sumt er dýrara en heima, annað ódýrara. Það fer líka eftir því á hvaða staði þú ferð. Að fara í bæinn og kaupa sér kaffi er frekar dýrt, en þú getur alltaf fundið ódýra staði og góð tilboð ef þú leitar vel. Það er ekki dýrt að versla í matinn, og að kaupa áfengi út í búð er hlægilegt. Frekar hættulegt ef manni finnst sopinn góður! Það dýrasta sem þú kaupir eru hnetur og matvæli með viðbættum sykri, Danir leggja svo mikinn skatt á þær vörur. Að versla föt getur þú sjálfur ákveðið hversu miklu þú eyðir. Það er breytt úrval af verslunum, alls ekki jafn mikið og í Kaupmannahöfn, en það er alltaf hægt að finna eitthvað ódýrt, ef þú þarft.

Jomfru Ane Gade

Jomfru Ane Gade


– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Eitt stærsta kennileiti Álaborgar er Jomfru Ane Gade, sem er stærsta bargata í Skandinavíu. Gatan er hliðargata frá einni af göngugötum Álaborgar, og í henni finnast aðeins veitinga-og skemmtistaðir. Staðirnir eru misjafnir eins og þeir eru margir. Til dæmis eru þar venjuleg diskótek þar sem þú getur dansað sveittur til klukkan 7 um morguninn, þangað til þér er hent út, rokk bar sem aðeins spilar rokk og metal tónlist, Þýskir afterski barir þar sem dansað er uppá borðum og spiluð er tírólatónlist, og svo ósköp venjulegir barir með breytt úrval af bjór sem hægt er að velja á milli. Einhverjir af stöðunum eru opnir alla daga vikunnar, nánast teligt har jeg flere førstehjælp alla daga vikunnar, margir staðir opna fyrir hádegi á meðan aðrir eru opnir frá fimmtudegi til laugardags
Höfnin er ábyggilega einn vinsælasti staður Álaborgar. Hún er staðsett nálægt miðbænum. Útsýnið er rosalega fallegt. Svo er bara svo friðsælt að vera þar. Á sumrin ganga margir meðfram höfninni, kaupa mat í bænum og setjast niður við höfnina og borða, eða drekka bjór. Við höfnina er lítill garður þar sem er voða huggulegt að setjast niður og chilla, þar er körfubolta- og fótboltavöllur, og svo er lítil sundlaug út í sjónum.

– Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?
Í borginni eru nokkrir garðar sem hægt er að heimsækja. Mér finnst gott að fara þangað inn á milli, þegar ég sakna að sjá smá náttúru. Danmörk er ekki beint þekkt fyrir dásamlega náttúru eins og Ísland, með fjöllum og trjám. Vinsælustu garðarnir eru líklega Kildeparken, Karolinelund og Østre Anlæg. Þeir eru allir flottir og sérstakir á sinn hátt.
Það eru margir staðir í Álaborg sem nauðsynlegt er að skoða og upplifa. Til dæmis Aalborgtårnet, garðana sem ég nefndi hér fyrir ofan, höfnin, Jomfru Ane Gade, Musikkens Hus, Nordkraft og Aalborg zoo svo eitthvað sé nefnt.

café Klostertorvet

Café Klostertorvet


– Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?
Mín uppáhalds kaffihús í miðbænum eru Café KlosterTorvet, þar sem ég vinn. Það er ódýr og kósý staður þar sem maður fær bestu og mest djúsí nachos í bænum, ódýrt kaffi og svo er happy hour frá fimmtudegi til laugardags. Penny Lane og Abbey Road eru ótrúlega hugguleg kaffihús sem bjóða uppá sjúklega góðar bollur og sætabrauð með kaffinu. Önnur vinsæl og góð kaffihús eru Café Peace og Café Vesterå. Ég gæti endalaust talið upp góða veitingastaði, kaffihús og bari, borgin er full af þeim, en ég læt þetta duga í bili.

– Hvað einkennir heimamenn?
Danmörk er ekki frábrugðin Íslandi þegar kemur að menningu. Það er þó alltaf einhver munur, og hefðir sem maður þarf að aðlagast. Danir lifa mjög mikið eftir sínu dagatali. Þeir plana allt fram í tíman, stundum marga mánuði. Mér finnst alltaf jafn furðulegt þegar mér er boðið í afmæli sem er eftir 4 mánuði. Hvernig í ósköpunum á maður að vita hvort maður komist þá? Ég gæti verið flutt úr landi eða dauð! Danir eru heldur ekki spontant. Þeir plana alltaf daginn sinn fyrirfram, og ef þeir hafa planað að koma heim eftir vinnu eða skóla og slappa af, þá er ekki séns að fá þá út eða að koma í heimsókn. Ef þeir vilja svo hittast, þá þarf að plana það með góðum fyrirvara. Þessu átti ég erfitt að venjast, enda eru Íslendingar einstaklega spontant.
Annað sem mér fannst mjög undarlegtt í fyrst var það hversu Danir eru ótrúlega góðir í að chilla og gera ekkert. Þeir geta eytt öllum sínum tíma, sérstaklega ef það er gott veður, í að sitja úti og sötra bjór í góðum félagsskap, fara á kaffihús og hanga þar allan daginn, og bara „hygge sig“. Ég man hvað mér fannst þeir ótrúlega rólegir, latir og góðir við sjálfan sig. En þegar maður sjálfur hefur búið hér, finnst mér það eiginlega bara þægilegt. Sérstaklega í samanburði við að vera á Íslandi, þar sem hlutirnir þurfa að gerast strax, allir þurfa að eiga allt og gera allt, og aldrei er hægt að slappa af. Ég hef allavega reynt að tileinka mér einhverja danska siði, og er kannski orðin aðeins of góð í að plana daginn frá byrjun til enda.

Heimamenn að slappa af

Heimamenn að slappa af


– Helstu kostir borgarinnar?
Helsti kostur Álaborgar er að borgin er passlega stór. Maður á sína uppáhalds staði, rekst á sama fólkið frá degi til dags, en samt er alltaf möguleiki að upplifa og prófa eithvað nýtt. Það er einnig auðvelt að ferðast á milli staða, strætókerfið í borginni er þægilegt, og auðvelt að taka lestina ef maður vill komast eitthvað lengra. Það er ekki nauðsynlegt að eiga bíl, þó svo að það gæti stundum verið þægilegt. Hér eru svo margir veitingastaðir og barir, og maður þarf aldrei að labba langt á djamminu, því skemmtistaðirnir eru nánast allir í sömu götu.

– Helstu gallar borgarinnar?
Álaborg hefur þó líka sína galla. Það getur verið erfitt að finna húsnæði á almennum markaði, og biðlistinn er oft mjög langur. Það er langt að ferðast ef maður vill komast til Íslands, það er líka dýrt og sjaldan beint flug. Ef þú átt bíl finnurðu aldrei bílastæði í borginni. Ef þú ætlar að leggja bílnum þínum þartu að finna bílakjallara og borga góða upphæð fyrir það. Þeir eru ekki margir þannig þú endar með að þurfa að leggja langt frá, svo þú hefðir alveg eins geta labbað í bæinn og sleppt því að eyða tíma og peningum í að leggja.

– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Þegar ég flutti til Danmerkur hafði ég alltaf hugsað mér að flytja aftur til Íslands eftir einhvern tíma. En eftir að hafa verið hér í rúmlega tvö ár, er ég ekki viss um að ég hafi áhuga á því lengur. Hér er gott að búa, landið hefur upp á svo margt að bjóða varðandi nám og atvinnu, og það er í raun mun auðveldara að ná endum saman hér en heima. Ég gæti alveg hugsað mér að búa hér til frambúðar, en ég myndi vilja prófa búa í öðrum borgum í Danmörku, kannski Árósum eða Kaupmannahöfn.

 

Sambíó

UMMÆLI