Intersand MaxCare 12 kg | Gæludýr.is

Borgin mín – Barcelona

Borgin mín – Barcelona

Borgin mín er nýr liður á Kaffinu. Þar komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni fengum við Sonju Gunnarsdóttur til að segja okkur frá Barcelona.

 

a-sonja1

Sonja Gunnarsdóttir


– Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég kom hingað fyrst sem Au Pair. Ég var í raun komin með annan fótinn til Nýja Sjálands en svo hafði fjölskylda héðan samband við mig og þar sem mig langaði mikið að læra spænsku valdi ég að koma frekar hingað. Hérna féll ég svo fyrir borginni og kærastanum mínum sem er héðan og hér erum við.

– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi? 
Ég bý í úthverfi lítils bæ í fjallendi kringum borgina og er svona sirka 20 mín til borgarinnar þegar það er engin umferð. Það er mjög fínt því maður hefur náttúruna í kringum sig og rólegheitin en svo er stutt (á spænskum mælikvarða) að sækja alla þjónustu og afþreyingu í borgina. Við búum í okkar eigin húsnæði og ég hef aldrei verið á leigumarkaðnum hérna en fasteigna- og leiguverð fer mikið eftir staðsetningu. Fasteignaverð er hátt og álitið dýrt að búa hérna miðað við verðlag á Spáni.

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Það er svolítið erfitt að bera saman. Hérna borgar maður t.d. meira fyrir vatn og rafmagn sem okkur á Íslandi finnst nánast sjálfsagður hlutur og menntun er dýrari. Hins vegar er lækniskostnaður og lyf mun ódýrari og almenn neysluvara að sama skapi.

– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Hér eru mörg frægustu kennileitin verk arkitektsins Antonio Gaudi, t.d. Park Guell, Sagrada Familia og byggingar í borginni eftir hann sem líta út eins og þær hafi verið klipptar út úr ævintýri. Svo er það göngugatan La Rambla og Gotneska hverfið. Hér er líka fjöldin allur af söfnum og borgin þekkt fyrir að vera mikil listaborg.

Sagrada Família

Sagrada Família


– Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða? – Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Það kemur enginn staður sérstaklega upp í hugann en ég mæli með að fólk fari út fyrir helstu túristasvæðin. Barcelona er svo falleg borg og fjölbreytt, á litlu hverfisbörunum getur maður fengið rosalega góðan mat og skemmtilegt umhverfi. Eins mæli ég með að fara út fyrir borgina. Með stuttri lestrar- eða rútuferð kemstu til fallegra strandbjæa eins og Tossa de Mar og Sitges.

– Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku? –
Ég kann spænskuna og í samanburði við íslenskuna er hún frekar einföld. Katalónskan er hins vegar flóknari og framburðurinn mun erfiðari. Ég skil hana að einhverju leiti en er ekki farin að tala hana mikið ennþá.

Varstu vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst?
Þegar að ég fyrst flutti nei, eftir því sem tíminn leið gerði ég mér hinsvegar mikið meira grein fyrir því hvað þetta eru ólík lönd. Svo þegar ég byrjaði að vinna gerði ég mér grein fyrir því hvað Spánn er stutt kominn í jafnréttismálum, hvort sem það eru réttindi kvenna, feðra, mæðra, fatlaðra o.s.frv. Hér er fjölskyldan stoð og stytta einstaklingsins og ekki hægt að reiða sig á neitt annað, t.d. eru fáir sem flytja að heiman fyrr en þeir eru komnir í samband og ömmur og afar koma oft í staðinn fyrir dagforeldra á Íslandi.

Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Það er svo margt t.d. það sem ég nefndi fyrir ofan. Svo líka til að nefna eitt sem mér finnst mjög skemmtilegt við Spán þá er það hvað fólk lifir mikið á götunni. Allur hugsanlegur frítími sem fólk hefur er eytt úti, það hittist í drykk á bar eða kaffihúsi og situr á veröndinni, hittist með börnin á róló eða bara á bæjartorginu og spjallar og situr þar kannski tímunum saman. Hér er fólk ekkert að stressa sig á að borða klukkan sjö eða það þurfi að laga til eða þrífa. Hugsa að það hafi samt mikið með verðlag og veðurfar að gera.

a-sonja2
– Hvað einkennir heimamenn?

Mér finnst þeir upp til hópa vinalegir og lífsglaðir. Margir tala þó um að Katalónar séu góðir með sig og lokaðir en ég hef enn ekki kynnst því. Svo hafa Katalónar ekkert rosalega gott orðspor á sér frá Spánverjum en það er bara pólitík.

– Helstu kostir borgarinnar?
Fjölbreytileikinn klárlega. Hérna eru veitingastaðir af öllum gerðum, söfn og áhugaverðar byggingar, barir, skemmtistaðir, strandir, verslanir, leikhús, fólk af öllum stærðum og gerðum, gömul hverfi, ný hverfi, hvort sem þú ert fyrir útivist eða inniveru þá er alltaf nóg um að vera í Barcelona fyrir alla.

– Helstu gallar borgarinnar?
Umferðin. Í Barcelona eru verstu umferðarteppurnar á Spáni. Fólk eyðir að meðaltali tveimur tímum aukalega á dag í umferð þurfi það að ferðast með bíl á háanna tímum.

– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Við erum búin að gera okkur ágætt hreiður hérna og líður vel svo ég reikna með að vera hérna alla veganna í einhvern tíma í viðbót. Það er þó draumurinn að flytja einhvern tímann aftur til Íslands því fjölskyldan heldur alltaf í mann. Eins væri mjög skemmtilegt að spænska fjölskyldan fengi að upplifa lífið og menninguna á Íslandi.

 

UMMÆLI

Sambíó