beint flug til Færeyja

Borgin mín – Buenos Aires

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við kynnumst borgum víðsvegar í heiminum og Akureyringum sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni fengum við Eyþór Gylfason til að segja okkur frá borginni Buenos Aires í Argentínu, þar sem hann býr núverið. 

buenos-aires– Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Ég er að skrifa meistaraverkefnið mitt í Ritlist og hef lengi verið heillaður suður-amerískum bókmenntum. Einn af mínum uppáhalds rithöfundum er Jorge Luis Borges sem er héðan og bjó í Buenos Aires bróðurpart lífs síns.

Eyþór Gylfason.

Eyþór Gylfason.

– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?
Ég leigi herbergi frekar miðsvæðis en borgin er mjög hverfaskipt og miðbærinn getur verið fljótandi hugtak, þó hann sé í raun í kjarna sem kallast San Telmo. Ég bý mjög nálægt hipsteramiðbænum sem er staðsettur í Palermo og er líklegast vinsælasti ferðamannastaðurinn. Þessi leiga er langt undir markaðsverði á Íslandi og ef maður fær ákveðna dvalarleyfis pappíra hérna er mjög hagstætt að búa í leiguhúsnæði hérna.

– Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Núna er krónan mjög sterk gagnvart argentínska pesóanum og þar með kaupmáttur hár, en hér er mikil verðbólga eða 40% svo verð hækka reglulega og algengt að búið sé að líma yfir verð á matseðlum veitingahúsa eða þeir noti krítartöflur til þess að sína verðin sín. Eins eru innfluttar vörur mjög dýrar í samanburði við önnur lönd, tollar og fjármagnshöft Argentínu eru mjög flókin. Hrægammasjóðir fá nýja merkingu í þessu landi eftir að ríkið fór á hausinn árið 2001. Það ríkir mikil andúð gegn Bandaríkjunum eða meðferðinni sem stjórnvöld þar í landi hafa komið fram við landið og álfuna í gegnum árin.

Floralis Genérica

Floralis Genérica

– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Floralis Genérica er mekanískt blóm sem opnast í morgunbjarma sólarinnar og lokast síðan aftur í sólsetrinu. Það var hannað af þekktasta arkítekt Argentínubúa sem hét Eduardo Catalano. Þar er ávallt allt morandi í ferðamönnum en jafnvel heimafólki líka því fólk hér eyðir miklum tímum í almenningsgörðum að sleikja sólina eða bara að tjilla. Forsetahöllin hérna er líka vinsæll áfangastaður ferðamanna, hún er staðsett í miðbænum eins og flestar skrifstofubyggingar ríkisins. Hún er bleik sem segir kannski eitthvað um Argentínu án þess að ég viti hvað það er. Óperuhúsið er líka mjög tilkomumikið og eru hljómgæðin þar talin til meðal þeirra bestu í heimi og ýmsar sögur ganga um það. Til að mynda komu þrír arkítektar að teikningu hússins og eiga þeir allir sinn þriðjung og ég held ég sé ekki að ljúga þegar ég segi að allavega tveir hafi dáið í ferlinu. Þess vegna hafi þeir að lokum orðið þrír.

Bókabúð.

Bókabúð í gömlu leikhúsi.

– Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?
Ég held að Tripadvisor og Lonely planet hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að ljúka hulunni af öllu því sem er áhugavert. Ég held að best sé að finna púls borgarinnar að sjálfsdáðum. Kannski bókabúðir, þær eru oft mjög glæsilegar, til dæmis er ein sú stærsta staðsett í gömlu leikhúsi.

15032454_10211125479723308_113073300_n

Vegglistaverk af Fridu Kahlo, listmálara.

– Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?
Ég hangi oft á kaffihúsi sem heitir Adorado og er á landamærum hverfisins sem ég bý í, Colegiales, og Palermo. Þar er fínt kaffi sem er merkilega erfitt að finna í þessari borg.

– Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Nei, ég get ekki sagt að ég kunni tungumálið en appið Dualingo er góður vinur og ég er farinn að geta bjargað mér í einföldustu aðstæðum. Hér er töluð spænska og er af latneskri rót og líkindi málsins með íslensku eru hverfandi en samsömun með ensku kemur sér gjarnan vel.

 – Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Þetta er hálfgerður menningargrautur, hér er mikið lagt upp úr fjölmenningu og eru íbúar allsstaðar að. Þetta er í grunninn frekar vestur-evrópsk borg, bæði af byggingarstíl og fasi íbúa, ef svo má að orði komast. En þetta er líka frekar austur-evrópskt, þetta er annars heims ríki. Það er mjög margt sem er flókið og landið hefur lent í hremmingum sem ég get illa útlistað í fáum orðum.

– Hvað einkennir heimamenn?
Þjóðin er mjög vinarleg og jákvæð, þeir tala mikið með höndunum og hér ríkir ástríða fyrir öllu mögulegu, tangó, nautakjöt og fótbolti eru klisjurnar sem tróna á toppinum.

– Helstu kostir borgarinnar?
Hér eru mjög öflugar almenningssamgöngur bæði strætisvagnar og neðanjarðarlest, síðan er afleiðing hverfaskiptingarinnar sú að það er mjög stutt að sækja alla þjónustu. Það eru allskyns bæjarkjarnar, barir, leikhús, kjörbúðir og veitingastaðir. Síðan eru huggulegir almenningsgarðar úti um allt. Nautakjöt er líka hlægilega ódýrt.

Í Buenos Aires búa rétt tæplega 3 milljónir manna.

Í Buenos Aires búa rétt tæplega 3 milljónir manna.

– Helstu gallar borgarinnar?
Stærðin getur bæði verið kostur og galli en hún þvælist stundum fyrir manni ef maður þarf að finna eitthvað sem ekki er staðsett í nærumhverfinu. Síðan eru ýmis lífsgæði sem maður hefur vanist úr fyrsta heiminum sem ekki eru til staðar og svo þessi höft á allan fjandann sem eru kannski stærsta hindrunin í þeim efnum. Kaffi er líka almennt vont. Bækur á öðrum tungumálum eru illfáanlegar og innflutningsgjöld eru mjög há.

 

– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Ég held ég myndi ekki vilja setjast hér að, en ég væri alveg til í að eiga hús eða heimsækja borgina reglulega.

Buenos Aires á sólríkum degi.

Buenos Aires á sólríkum degi.

Sambíó

UMMÆLI