NTC netdagar

Borgin mín – Helga Númadóttir í Sevilla

Borgin mín – Helga Númadóttir í Sevilla

Borgin mín er liður á Kaffinu. Hér komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni fengum við Helgu Númadóttur, Akureyring til að kynna okkur fyrir Sevilla.

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Ég bý í Sevilla vegna þess að ég er í skiptinámi hér við Universidad de Sevilla frá Háskóla Íslands. Spánn varð fyrir valinu því ég vildi æfa mig í spænsku og þar gat ég fengið Erasmus styrkinn en ekki utan Evrópu. Sevilla var svo frekar handahófskennt val en veðurfarið spilaði inn í, ég var spennt fyrir því að fara á stað þar sem væri gott veður á meðan dvölinni stæði en ekki bara í lokin. Fullkomið að fara svo heim í júní akkúrat þegar hitinn er orðinn óbærilegur.

Sevilla


Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?
Ég bý í herbergi í íbúð í miðbænum, á dýrasta svæðinu í borginni, en er samt að borga minna en ég myndi gera fyrir herbergi á Stúdentagörðum. Íbúðinni deili ég með sex öðrum og ég

hugsa að ég gæti ekki verið heppnari með meðleigjendur og hefur sambúðin gengið eins og í sögu, en það er nokkuð klassískt að heyra herbergisfélaga hryllingssögur hérna. Svo erum við með frábæra sameiginlega þakaðstöðu með lítilli sundlaug sem er mikil blessun í hitanum.

Mín reynsla af Sevilla er nánast 100% byggð á miðbæjarsvæðinu, ég er í einum spænskutíma í 3 km fjarlægð og þangað fer ég á hjóli en annars þekki ég önnur hverfi voðalega lítið. Mér finnst ég til dæmis jafn örugg hér og á Akureyri þegar ég labba heim á næturnar en veit að það er aðeins öðruvísi í öðrum hverfum.

Það er mjög stutt fyrir mig að fara nánast allt og ég er svo heppin að deildin mín í háskólanum er akkúrat í aðal – og elstu byggingunni rétt hjá íbúðinni minni. Ræktin mín, matvörubúðir, verslanir, kaffihús og öll möguleg þjónusta er svo í 1-10 mín göngufæri.

Ég er mjög hrifin af því hvað þetta svæði er lítið keyrt en samkvæmt google maps tekur yfirleitt þrisvar sinnum lengri tíma að taka taxa en að ganga hérna í miðbænum svo ég hef varla stigið upp í bíl síðan ég kom hingað.

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Það verður mikill skellur fyrir mig að koma heim verðlega séð en evran hefur náttúrulega verið að leika við mig síðustu mánuði. Miðað við samanburðarsíður á netinu í dag er Sevilla 58% ódýrari en Reykjavík (55% fyrir nokkrum mánuðum) sem er munur sem ég hef nýtt mér meira til þess að njóta óhóflega en að spara. Stór bjór á bar er c.a. 2 evrur miðað við 1.000 – 1.200 kall heima til dæmis.

El Real Alcázar de Sevilla


Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Ég myndi segja að Plaza de España, stórt torg sem var meðal annars notað við tökur á Star Wars: Episode II – Attack of the Clones og El Real Alcázar de Sevilla, elsta konungshöll Evrópu sem enn er í notkun og tökustaður fyrir Game of Thrones seríu fimm (The Water Gardens of Dorne), væru svona þeir tveir helstu.

Þar á eftir myndi ég svo nefna La Catedral de Sevilla, stærsta gotneska kirkja í heimi og þriðja stærsta kirkja í heiminum. En svo er fullt af öðrum, t.d. skólinn minn (free guiding tour kl. 11 í boði alla virka daga sem setur áhugaverðan svip á skólalífið), Las Setas, risastór, skrítin, sveppalaga bygging sem hægt er að fara upp á til þess að sjá yfir borgina og fá frían drykk, og Plaza de Toros – konunglegur nautaatshringur frá 1749 sem ég myndi ekki undir neinum kringumstæðum heimsækja.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?
Það sem mér dettur einna fyrst í hug er La Alameda, einn af uppáhaldsstöðunum mínum í Sevilla, sem er alls ekki neinn leyndur gimsteinn heldur frekar staður sem ég tók eftir að væri mest sóttur af Spánverjum. Þetta er stórt torg sem iðar af mannlífi og á því/í kring er allt fullt af tapasstöðum og börum og svo eru stundum haldnir markaðir þar. Ástæðan fyrir því að ég mæli sérstaklega með því er sú að ég sjálf hef oft lent í því að vera svöng í útlöndunum að leita að hinum fullkomna veitingastað en á sama tíma glími ég við mikinn valkvíða. Að ramba á svona svæði væri algjör draumur við þær aðstæður.

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?
Ég hugsa að ég eigi hátt í tíu uppáhaldsveitingastaði, allt tapas, en ef ég ætti að velja einn myndi ég velja lítinn stað sem heitir Arte y Sabor og er einmitt við La Alameda. Ég hef líka eytt rosalegum tíma á kaffihúsum þar sem það getur verið erfitt að læra heima, bókasöfnin í skólanum eru gömul og loftlaus og lífsnauðsynlega VPN-tenging mín við Snöru virkar ekki á besta almenningsbókasafninu. Eftir mikla rannsóknarvinnu var eitt sem stóð upp úr, The Red House, sem uppfyllir allar mínar kröfur: besta WiFi sem ég hef kynnst í Sevilla, frekar ódýrt, góð íste, gott möns, góð tónlist, oft mjög fámennt, starfsfólkinu alveg sama þó ég læri þar í marga klukkutíma án þess að versla mér stanslaust eitthvað og engin ísköld loftkæling sem getur verið erfitt að eiga við á þegar maður er klæddur í takt við 38 gráðurnar úti.


Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Ég lærði spænsku þegar ég bjó í Argentínu í eitt ár í menntaskóla og markmið mitt með skiptináminu var fyrst og fremst að dusta rykið af henni þar sem hún hefur legið í dvala síðustu sjö ár. Spænskan er mjög ólík íslenskunni og Ítalir og Frakkar hafa til dæmis gríðarlegt forskot á mig en hún er klárlega einfaldara tungumál en íslenskan þó hún geti verið lúmsk. 

Það er sérstaklega áhugavert fyrir mig hvað spænskan á Spáni er ólík þeirri í Argentínu sem getur verið mjög ruglandi, það var því himnasending fyrir mig að kynnast argentínskri stelpu hér sem gat staðfest ýmislegt sem ég er búin að vera velta fyrir mér.  

Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Ég hugsa að ég hafi ekki upplifað neitt menningarsjokk þannig. Það er auðvitað margt öðruvísi og einn mesti munurinn fyrir mig eru matartímarnir en það venst samt ótrúlega fljótt og svo var það eins í Argentínu. Hér er hádegismatur að ganga þrjú og kvöldmatur í kringum tíu, margir veitingastaðir opna til dæmis ekki fyrr en klukkan 9 á kvöldin. Ég hef oft komið til Spánar en það er rosalega ólík upplifun að búa hér í Sevilla og mesta sjokkið var líklega að uppgötva hvað ég vissi lítið um Spán. Svo fannst mér mjög áhugavert þegar ég kom fyrst hvað bjór er allstaðar, á öllum tímum sólahringsins. Allt öðruvísi og miklu afslappaðari menning í kringum áfengi og ekki óalgengt að sjá fólk sitja rólegt á bar með börnin sín seint á kvöldin.

Hvað einkennir heimamenn?
Mér finnst einkenna sevillanos hvað þeir eru hrikalega hressir og háværir. Ég bý á fjórðu hæð og það er yfirleitt hávaði, kliður og tónlist í herberginu mínu og þegar ég er með svalahurðina eða gluggann opinn eru stundum bara læti. Mér finnst mjög huggulegt að heyra tónlistina frá götulistamönnunum en ég get ekki ímyndað mér hvernig er að búa á fyrstu hæð. Svo er fólk hér mjög opið og mér finnst til dæmis ennþá jafn áhugavert að einkunnir úr prófum eru einfaldlega límdar upp á vegg í skólanum þar sem allir geta séð og svo eru teknar myndir sem póstað er inn í WhatsApp hópa nemenda þar sem farið er yfir málin. Einn kennarinn gaf meira segja fyrst bara upp nafnalista yfir þá sem féllu í lokaprófinu, ásamt einkunn og persónulegri umsögn þar sem hún greindi frá því hvernig hver og einn klúðraði sínum málum. Aðeins öðruvísi stemning en í HÍ þar sem einkunnir eru birtar á persónulegum UGLUaðgangi og fólk getur haldið þeim leyndum fyrir umheiminum.

Helstu kostir borgarinnar?
Verðið og veðrið! Og bara allt mannlífið og fegurðin. Ég hef ferðast til rúmlega 30 landa og þetta er ein allra fallegasta borg sem ég hef komið til, það kom mér á óvart þegar ég kom hingað fyrst hvað hún er geggjuð.


Helstu gallar borgarinnar?
Veðrið yfir hásumartímann á reyndar heima hér líka. Það er leiðinlegt að geta varla verið úti á ákveðnum tíma dags vegna hita. Ég er samt ein af þessum manneskjum sem er alltaf kalt þannig mér finnst ljómandi að fara út úr loftkældu rými og fá svona tilfinningu eins og ég sé að stíga ofan í heitan pott en það eru eðlilega ekkert allir sammála mér. Svo er rosalega mikið reykt hérna og ég hef andað að mér svo miklum óumbeðnum sígarettureyk að þolinmæði mín gagnvart reykingum hefur snarminnkað.

Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Ég hef velt því mikið fyrir mér af því það eru margir skiptinemar sem ég þekki svo heillaðir af Sevilla að þeir vilja ekki fara heim og þónokkrir komnir með grænt ljós frá skólunum sínum um að vera lengur. Ef ég gæti platað alla mína nánustu til þess að koma með mér þá væri það ekki spurning en eins og er þá er komin rosalega mikil Íslandsþrá í mig. 

UMMÆLI

Sambíó