Prenthaus

Borgin mín – París

Borgin mín er nýr liður á Kaffinu. Þar komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. 

París, Frakkland

paris-arc-triomf

– Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Ég hef flutt núna tvisvar sinnum til Parísar til þess að læra frönsku í Sorbonne háskólanum. Ég og París höfum alltaf deilt einhverjum ósýnilegum tengslum sem ég veit ekkert hvaðan koma. Þetta byrjaði allt sem fjarlæg hugmynd þegar ég var í fyrsta bekk í MA við það að falla í frönsku. ,,Ég ætla bara að flytja til Parísar einn daginn og læra þetta þá, þarf ekkert að gera það núna“. Svo eftir framhaldsskólann var ég komin með þennan Akureyrarleiða sem að við könnumst flest við en nennti ekki í háskóla alveg strax. Þá bara ákvað ég að skella mér. Fyrrum frönskukennarinn minn úr MA hjálpaði mér að finna skólann sem ég skráði mig svo í, svo eyddi ég þremur mánuðum í að finna íbúð á netinu og svo bara allt í einu var ég komin þangað.

– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi)  Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

parismap_new
Í fyrra skiptið sem ég bjó í París þá bjó ég í 17 fermetra stúdíóíbúð. Hún var staðsett í 10.hverfi sem er mjög miðsvæðis. Hið fullkomna hverfi að mínu mati staðsetningarlega séð, en eins og einhverjir vita þá skiptist París upp í 20.hverfi sem liggja í hringi. Hverfið sjálft var hinsvegar svona frekar mikið gettó, ótrúlega fallegt á köflum en gatan mín sjálf var einhvers konar götumarkaður í bland við hárkollubúðir, melludólga, betlara og krúttlega kebabsölumenn. Við getum sagt að móðir mín hafi ekki verið mjög hrifin þegar hún heimsótti konuna og hafði miklar áhyggjur af mér þarna einni. Í seinna skiptið bjó ég hinsvegar í 18.hverfi sem er ekki eins miðsvæðis en mjög flott hverfi, elsta hverfi Parísar sem fólk þekkir mögulega betur undir nafninu Montmartre. Þar fækkaði ég um þrjá fermetra, enda alveg óþarfi að hafa svona mikið pláss… fyrir þá sem eru ekki stærðfræðingar þá gerir það 14 fermetra stúdíóíbúð. Fyrir 14 fermetrana var ég borga um 90 þúsund krónur en 17 fermetrana var ég að borga ca. 150 þúsund krónur. Gjöf en ekki gjald fyrir þessar villur. Í fyrri íbúðinni fylgdi líka loftbyssa með sem að ég hélt heillengi að væri skammbyssa. Leigusalinn tjáði mér að ég gæti notað hana til að skjóta dúfurnar á næsta þaki eða hreinlega ógna óboðnum gestum ef að hengilásarnir þrír sem á hurðinni voru, virkuðu ekki. Enn og aftur var þetta bara til þess að róa móður mína meira.

– Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Það fer eftir ýmsu. Íslendingar hafa eflaust fundið fyrir því í EM ævintýrinu að París getur verið mjög dýr borg. Ég hef t.d. aldrei keypt jafn dýra kók í gleri og í París, á 13 evrur, sem var þá rétt tæplega tvö þúsund krónur. Mér fannst of vandræðalegt að hætta við og segja að ég ætti eiginlega ekki fyrir henni. Svo eyddum ég og vinkona mín restinni af deginum í að stoppa annað slagið og segja 2000 KRÓNUR?! FYRIR KÓK? Það hjálpaði mér mikið.
Ég hef komist að því þó í gegnum tíðina að það fer bara algjörlega eftir því hvar þú ert í París, hvað þú þarft að borga fyrir mat og drykki. Ef þú ert nálægt helstu túristastöðunum, í vinsælustu hverfunum og stoppar á kaffihúsi/veitingastað þar, þá ertu að fara að borga miklu meira fyrir heldur en ef þú værir í t.d. 13.hverfi eða 20.hverfi. Því borgar sig algjörlega að skipuleggja sig hvar þú ætlar að borða kvöldmat/hádegismat ef þú ert „on a budget“ því að ef þú ákveður að fara bara að Eiffel-turninum og sjá svo til hvar þú borðar, þá verður þú að fá þér yfirdrátt.
Að versla í matinn í súpermarkaðnum er hinsvegar ekkert svo dýrt. Kjöt, bjór og vín er mjög ódýrt, ávextir líka. Brauð er mjög ódýrt, sem er ekkert sérstaklega gott fyrir brauðkonu eins og mig sjálfa. Niðurlag mitt er því eftirfarandi: það er hægt að lifa tiltölulega ódýrt í París ef þú skipuleggur þig vel, ef þú gerir það ekki er það svipað dýrt og á Íslandi, stundum dýrara.

– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Ætli ég þurfi nokkuð að telja þetta upp fyrir fólki? Það er einhver turn þarna sem fólk virðist elska. Svo eru þarna líka einhver rosa fræg söfn, man ekki alveg hvað þetta frægasta heitir.
Notre-Dame kirkjan, Sacre Coeur kirkjan í Montmartre hverfinu, Signa (La Seine) áin sem liggur í gegnum París, Jardin du Luxembourg garðurinn, Arc du Triomphe (Sigurboginn), Champs-Elysées verslunargatan, Óperuhúsið og svo lengi, lengi mætti telja.

– Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

cleaning-the-canal-saint-martin-in-paris-reveals-scooter-and-bike-graveyard_7Ég veit nú ekki hvort að ég geti nefnt einhvern stað sem er einhver hulinn demantur, enda erfitt að finna stað í 9 milljón manna borg sem fáir hafa komið á. Hinsvegar fannst mér alltaf lang best að vera í kringum Saint-Martin Canal. Það er sýki í 10.hverfi, rétt hjá Place de la Republiqué, þar sem að mjög margir ungir heimamenn koma saman á sólríkum dögum. Þar setjast þeir við sýkið, kaupa sér bjór eða vín í súpermarkaðnum og sitja þar langt fram eftir kvöldi.  Mér finnst líka mjög fallegt að labba þar meðfram þegar enginn er. Eins og á kvöldin á veturna. Ég held að allir mínir uppáhaldsstaðir í borginni séu þegar maður finnur smá ró, á vinsælustu stöðunum er alltaf svo ótrúlega mikið af fólki að maður verður fljótt þreyttur á áreitinu. Ef að þú ákveður að sleppa því t.d. að taka lestina eitt skiptið og labba í staðinn, þá finnur þú hvað París getur verið falleg.

– Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?
Það er nefnilega frekar fyndið að flestir staðir í París, þessir veitingastaðir/kaffihús sem þú sérð á hverju horni, eru flestir alveg nákvæmlega eins. Ég hef mjög oft pælt í því hvort að það sé bara sami eigandinn af þeim öllum eða hvort að þeir hafi allir opnað á sama tíma og keypt húsgögnin sín (borðin og stólana) fyrir algjöra tilviljun hjá sama heildsalanum.
Allavega, sem fátækur námsmaður í bæði skiptin sem ég bjó í París tel ég mig ekki getað svarað þessari spurningu með góðri samvisku. Ég get hinsvegar svarað henni sem fátækur námsmaður, og þá mundi ég nefna:

1. Le Perchoir.
dsc05390Franskur bar sem að er ekkert svo auðvelt að finna. Hann er alls ekki túristastaður og algjör gersemi falin innan um ógrynni skemmtistaða í Oberkampf hverfinu. Hann er með gullfallegt útsýni yfir París enda staðsettur á húsþaki, ódýrt vín og þegar kalt er úti: kyndla um allt.

2. Panini vagninn nálægt skólanum mínum.
Man ekki hvað hann heitir þó að ég hafi verið þarna annan hvern dag. Besta panini í heiminum. Ef einhver vill fara þangað, finnið mig á facebook og ég google-mapsa þetta bara fyrir ykkur.

3. Ladurée
Bestu makkarónur ever, enda alltaf röð lengst út úr dyrum.
Þetta er semsagt laduree-champs-elysees-le-bar-lincoln-630x405-otcpelsta bakarí Parísarborgar. Sjúklega dýrt en ótrúlega flottur staður. Þarna er líka veitingastaður sem að ég leyfði mér einu sinni að fara á og leið eins og drottningu meðan ég snæddi af gylltum hnífapörum og drakk úr bikar með kórónu. Eða þannig var þetta allavega í minningunni.

4. Le Relais de L’entrecôte
Bara einn réttur á seðlinum, alltaf. Naut, einhverskonar útgáfa af bernaise og franskar. Ekki flókið og ekki vont. Mæli með enda er þetta svakalega vinsæll staður/staðir í París.

 – Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Ég hef ófáum sinnum tjáð mig um frönsku í samanburði við íslensku. Það væri efni í aðra ritgerð ef ég ætti að tala um frönskuna hér og nú. Ég læt það duga að segja að þetta eru appelsínur og útvörp, gerólíkt. Ekki einu sinni nei hljómar svipað. Nei og Non. Gerði mér talsvert erfitt fyrir, sérstaklega þegar ég kom út fyrst.

– Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Má segja allt? Allt var sjokk fyrst. Það sem mér fannst mesta sjokkið var að sjá í alvörunni steríótýpurnar sem að maður hélt að væru ýktar. Maður í röndóttum bol með baguette undir hendinni, það voru eiginlega bara allir með baguette undir hendinni. Þó að þeir væru með tösku á öxlinni sem að passaði akkurat undir baguette-ið þá samt fóru þeir óþægilegu leiðina og höfðu það undir hendinni frekar? Það var kannski ekki mesta sjokkið, en ofarlega þó.

– Hvað einkennir heimamenn?
Upp til hópa eru þeir dónalegir. Margir yndislegir inn á milli en upp til hópa dónalegir eða kannski hrokafullir frekar. Það skánaði samt allt með batnandi frönskunni minni. T.d. ef ég segi ,,Do you speak english?“ hrista þeir bara hausinn og segja non, non. Ef að ég segi ,,parlez-vous anglais?“ við sömu manneskjuna, þá talar hún ensku við mig.
Heimamenn drekka mikið vín, þeir eru alltaf að flýta sér (hraðinn í neðanjarðarlestarkerfinu er svakalegur, ekki á lestunum, heldur fólkinu) og svo kaupa þeir flestir brennda maísstöngla og hnetur úr innkaupakerrum úti á götu.

– Helstu kostir borgarinnar?
Hvað hún er falleg. Og söguleg. Þú ert að labba niður einhverja eldgamla götu og þér getur liðið eins og þú sért komin aftur til 1850. Ég set mig þá yfirleitt í karakter, kveiki mér í rillu og ímynda mér að ég sé á leiðinni heim að klára að skrifa skáldsöguna mína á ritvélina. Annars er París líka svo stór, það er svo margt að gera og sjá að þú þarft alveg að búa þarna í nokkur ár til þess að gera amk heiðarlega tilraun til þess að sjá allt.

– Helstu gallar borgarinnar?
Eins og París getur verið falleg getur hún verið rosalega ljót líka. Vasaþjófar, þjófar sem stela ekki bara úr vasa, útigangsfólk, betlarar og forsvarsmenn kynferðislegrar áreitni sem hanga á hornum skyndibitastaða og blístra óviðeigandi athugasemdir til kvenna á gangi. Allt þetta finnur þú á alltof mörgum stöðum í París. Ég get ekki sagt að ég sakni þessa.

– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg? 
Ég og París eigum mörg ókláruð mál. Mér finnst það rosalega líklegt að ég eigi eftir að fara aftur þangað og sigra franska heiminn. Er búin að vera að æfa mig með baguette-in úr Nettó svona þangað til, þau ná ekki sömu festu og þessu frönsku undir handakrikanum en þetta er allt að koma.

UMMÆLI