Busunin búið spil í MA? – ,,Það átti að leggja hana alveg niður í ár“

Menntaskólinn á Akureyri er ein af elstu menntastofnunum landsins. Mynd: ma.is.

Menntaskólinn á Akureyri er einn af tveimur framhaldsskólum Akureyrar og er þekktur meðal nemenda og útskrifaðra stúdenta á öllum aldri sem skóli hefðanna. Þær eru margar hefðirnar innan skólans og ein þeirra stærstu er án efa nýnemabusunin sem á sér stað í byrjun skólaárs, ár hvert.
Nú hefur MA verið að breytast mikið síðastliðin ár en nýverið var tekið upp þriggja ára kerfið, þannig að nú klára nemendur skólann á aðeins þremur árum í staðinn fyrir fjórum. Þó eru enn nemendur í skólanum sem byrjuðu fyrir breytingar og eru því að klára skólann á fjórum árum.

Í ár stóð það til að leggja niður busunina að sögn nemenda og vakti það mikla óánægju meðal þeirra, þá sérstaklega þeirra sem voru að hefja fjórða bekk á dögunum. Kaffið heyrði í einum nemenda í fjórða bekk og fékk að heyra hvernig þetta allt hefði farið fram.

Hann segir í samtali við Kaffið að staðið hafi til að fella niður busunina alveg í ár en Stjórn Hugins, nemendafélagsins við skólann ásamt fleirum, náðu að halda í helstu hefðirnar og fengu að halda inni einhverjum þáttum busunarinnar. Ástæðurnar sem voru gefnar fyrir því að hana átti að fella niður var sú að í raun mætti ekki mismuna nemendum, þ.e. að böðlar (nemendur í fjórða bekk) ættu ekki að fá að skipa busum fyrir, setja þeim reglur o.s.fv.
Skólastjórnenda sögðu það vera vegna þess að hvert ár kæmu alltaf einhverjir leiðir til þeirra og sögðu að þeim hafi ekki fundist þau vera velkomin í busuninni eða voru hrædd á einhvern hátt.

,,Við í fjórða bekk vildum vissulega hafa þetta eins og þegar við vorum busuð, hellingur af reglum, steikjast eins og beikon og fleira sem var bara fyrst og fremst skemmtilegt. Busadansinn stóð uppúr hjá flestum en það náðist með naumindum að halda honum í skólanum. Á meðan við vorum í Króatíu var nýnemadagur upp á hömrum sem ég er ekki viss hvernig fór fram.
Samt erum við mjög sátt með þetta sem við fengum því það átti að fella niður busunina algjörlega.“

Margar óánægjuraddir hafa látið heyra í sér í sambandi við stefnu skólans að fella busunina niður en mörgum finnst þetta nauðsynlegur partur af skólagöngunni og frábær leið til þess að kynnast og skapa tengsl milli nýnema og þeirra sem elstir eru. Þá eru nemendur stressaðir um hvað gerist í framhaldinu.

,,Busunin kemur og fer í bylgjum að mínu mati. Ég hef í rauninni enga hugmynd hvernig þetta verður í þriggja ára kerfinu. Ég held að fólk verði ánægt með ef það fær að busa á einhvern hátt, en annars er ég hræddur um að busunin týnist í þriggja ára kerfinu.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó