Covid-göngudeild á SAk opnuð í dag

Covid-göngudeild á SAk opnuð í dag

Sérstök COVID göngudeild opnaði á sjúkrahúsinu í dag, 6. apríl. Göngudeildin starfar í nánu samstarfi við COVID-teymi Landspítala og vaktþjónustu lækna á upptökusvæði SAk, en þeir vísa sjúklingum til skoðunar og meðferðar. Göngudeildinni er fyrst og fremst ætlað að sinna þeim sem eru með staðfest covid-19 smit og þarfnast frekari skoðunar en eru ekki í þörf fyrir innlögn á sjúkrahús. Á deildinni verður hægt að meta nánar ástand smitaðra og jafnvel veita minniháttar inngrip með það að markmiði að senda þá sem geta heim aftur eða grípa fyrr inn í hjá þeim sem eru í sérstakri áhættu eða sýna alvarleg einkenni.

,,Vaskur hópur starfsmanna hefur lagt hönd á plóginn í þessum undirbúningi en að mörgu er að hyggja s.s. húsnæði, sýkingavörnum, tækjakosti, lyfjamálum, verkferlum og mönnun lækna og hjúkrunarfólks svo eitthvað sé nefnt,“ segir í tilkynningu frá sjúkrahúsinu. Göngudeildin verður opin á dagvinnutíma, a.m.k. fyrst um sinn og verður þjónustan þróuð eftir því sem þörfin eykst. Berglind Júlíusdóttir, hjúkrunarfræðingur mun stýra daglegri starfsemi göngudeildarinnar.

Viðbragðsstjórn þakkar öllum sem hafa komið að undirbúningi fyrir frábær störf.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó