Druslugangan á Akureyri aldrei stærri í sniðum

Druslugangan 2016. Mynd: Embla Blöndal.

Druslugangan verður gengin í fimmta sinn á Akureyri næstkomandi laugardag, en gangan hefur verið árviss viðburður hérlendis frá árinu 2011. Hún á rætur sínar að rekja til Kanada en þetta sama ár gaf kanadískur lögreglumaður brotaþola til kynna að hann hefði getað komið í veg fyrir kynferðisofbeldi sem hann varð fyrir með því að klæða sig öðruvísi. „Fólk fékk bara nóg og réttlát reiði hratt af stað alþjóðlegri baráttuhreyfingu. Ef það hefði ekki verið þetta tiltekna atvik, hefði það líklega bara verið það næsta, það er því miður af nógu að taka,“ segir Elín Inga Bragadóttir, einn skipuleggjenda druslugöngunnar á Akureyri í ár, um tilurð druslugöngunnar.
Svo virðist sem druslugangan á Akureyri sé talsvert stærri í sniðum í ár en verið hefur, t.d. eru komnir í loftið þrír viðburðir á facebook henni tengdir: Druslugangan sjálf, Druslupepp og Druslulist. Spurð að því á hverju Akureyringar og nærsveitungar megi eiga von í vikunni svarar Elín: „Akureyringar mega eiga von á heljarinnar hávaða frá druslum í heila viku og meingölluð viðhorf mega eiga von á viðsnúningi.“

Druslugangan 2016. Mynd: Embla Blöndal.

Elín segir hávaðann hefjast formlega með Druslupeppi á Græna hattinum á miðvikudagskvöld klukkan átta. Frítt verður inn á viðburðinn, líkt og aðra viðburði druslugöngunnar, og fjöldi listamanna kemur til með að stíga á svið í nafni málstaðarins. „Frá Akureyri verða það DJ Vélarnar og KÁ-AKÁ, en þá þarf vart að kynna fyrir Norðlendingum. Við höfum svo fengið til liðs við okkur tvær hljómsveitir að sunnan, Gróu og Unu Stef. Ellen Ýr Gunnlaugsdóttir ætlar síðan að loka kvöldinu með því að flytja lag druslugöngunnar, ásamt mér.“ Elín segir dagskrá peppkvöldsins hafa verið lengi í vinnslu og nú þegar allt sé að smella geti skipuleggjendur ekki beðið þess að njóta afrakstursins. Þá vekur hún athygli á því að það megi vel hafa gaman í réttindabaráttu, þrátt fyrir að baráttumálin séu grafalvarleg. Það geti jafnvel verið baráttunni mjög mikilvægt. „Ég upplifi það svo ógeðslega valdeflandi að skemmta mér og fokka á ofbeldi og vond viðhorf samtímis, það er ein besta tilfinning sem ég finn fyrir. Ég vona að fleiri munu upplifa hana á miðvikudaginn!“

Áhrifarík skilaboð prýddu skiltin í Druslugöngunni í fyrra. Mynd: Embla Blöndal.

Á fimmtudaginn klukkan fimm opnar svo sýningin Druslulist í versluninni Flóru í Hafnarstræti. Elín segir sýninguna verða í þremur sýningarrýmum í Hafnarstrætinu – Flóru, Kaktusi (áður Rýmið, Dynheimar o.fl.) og glugga ART AK í Amarohúsinu. „Ég er ekki búin að sjá nein þeirra verka sem verða á sýningunni en er orðin ótrúlega spennt að taka þau inn í opnuninni á fimmtudag. Fólk má eiga von á mjög áhrifamiklum verkum og ég geri alveg ráð fyrir að þurfa að taka annan hring á sýningunni í rólegheitum á föstudag,“ segir Elín og minnir um leið á að sýningin standi aðeins opin í þrjá daga, frá fimmtudegi til laugardags.

Þessi segir þetta eins skýrt og mögulegt er. Mynd: Embla Blöndal. 

En druslugangan sjálf, týnist hún ekkert í öllu þessu havaríi? „Alls ekki, drusluvikan nær einmitt hápunkti í druslugöngunni sjálfri á Ráðhústorgi á laugardag. Við lofum mjög þéttri dagskrá sem samanstendur m.a. af hugvekjum, tónlist, dansi og ljóðlist. Akureyri er mjög rík af hæfileikaríku og kláru fólki og það voru margir sem okkur skipuleggjendum fannst eiga erindi þennan dag.“ Þá segir Elín alla sem skipuleggjendur komu að máli við hafa tekið vel í að leggja málstaðnum lið og greinilegt að hann standi mörgum mjög nærri.

Margar norðlenskar druslur hafa nú þegar meldað sig í gönguna á laugardag og það kæmi Elínu ekki á óvart ef metþátttaka yrði í druslugöngunni á Akureyri í ár. Hún vill koma því á framfæri að vinnustofur ART AK við Strandgötu (þar sem Sjóbúðin var áður til húsa) munu standa opnar á föstudag og þangað séu allar druslur velkomnar í skiltagerð. „Við erum þar með málningu, pappa og spýtur svo allir geti græjað sér skilti fyrir druslugönguna að kostnaðarlausu. Við verðum á svæðinu frá fjögur  á föstudag og líklega eitthvað fram á kvöld og hlökkum til að spjalla við akureyrskar druslur.“

Það eru allir velkomnir í Druslugönguna, því fleiri því betra. Mynd: Embla Blöndal.

En hefur baráttan einhverju skilað á síðustu árum? „Heilum helling. Ég finn t.d. mjög greinilega fyrir breyttum viðhorfum í þessum málaflokki frá því ég var unglingur, sem er bæði gleðilegt og hvetjandi. Framfarirnar verða bara alltof hægt. Við höfum ekki efni á þessum hægagangi, við erum að tala um mannslíf, mér líður oft eins og margir séu ekki alveg að kveikja á því.“ Elín bendir á að þema göngunnar í ár sé stafrænt kynferðisofbeldi og að í þeim málaflokki sé t.d. enn mjög langt í land. „Það er skaðleg orðræða út um allt í samfélaginu hvað stafrænt kynferðisofbeldi snertir. Að orðið hefndarklám hafi bara verið viðtekið í íslensku tungumáli þar til nýlega er ótrúlega lýsandi fyrir það hve stutt á veg við erum komin í baráttunni. Að almennt hafi ekki verið sett spurningarmerki við að tala um hrein og klár ofbeldisbrot sem klám er mjög sláandi, í raun alveg sjúklega brenglað og ótrúlega steikt að pæla í því. Að setja nektarmynd í dreifingu á netinu í leyfisleysi er svo kýrskýrt ofbeldisbrot, vöntunin á samþykki er augljóslega algjör.“
Að lokum talar Elín um mikilvægi þess að taka þátt í baráttunni með þeim hætti sem maður getur. Hver einasta mæting á drusluviðburði sé t.d. mjög gildishlaðin, því í henni felist krafa um breytingar. „Hittumst með hávaða í vikunni, skilum skömminni og minnum alla á að það er ekkert í þessum heimi sem heitir að bjóða uppá ofbeldi!“

Druslugangan 2016. Mynd: Embla Blöndal.

 

Mikil dagskrá fylgir Druslugöngunni í ár, líkt og í fyrra. Mynd: Embla Blöndal.

UMMÆLI

Sambíó