Ef ferðamannaiðnaðurinn hrynur er það græðgi og okri að kenna, ekki gengi krónunnar

Raggi Sót

Ragnar Gunnarsson skrifar


Ragnar Gunnarsson, eða Raggi Sót hefur um árabil verið ein helsta skrautfjöður íslenska poppheimsins sem söngvari Skriðjökla og alhliða lífskúnstner. Raggi hefur sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum og birti í dag áhugaverðan pistil um málefni ferðaþjónustunnar á Ísland. Við fengum góðfúslegt leyfi Ragga til að birta pistilinn. 

Það vakti athygli mína í gær að hótelhaldarinn Friðrik Pálsson gekk eins og ekkert væri inn á allar fréttastofur landsinns, vældi þar og skældi yfir háu gengi krónunnar og heimtaði að gengið yrði fryst. Þannig að allir séu með það á hreinu selur þessi kotbóndi nóttina á € 300-1050 í þessum geitnakofa sem hann rekur sem hótel á bökkum Rangár. Þetta leggst út á 35-125.000.- ísk nóttin og þessi fíni morgunverður fylgir.

Fréttasnápar landsinns eltu þennan okrara með grasið í skónum til að hlusta á hann kenna háu gengi krónunnar um að ferðamannaiðnaðurinn væri í mikilli hættu og það gæti bara orðið annað hrun ef ekki yrði gripið í taumana, og það strax. Eitt er alveg á hreinu, ef ekki er hægt að reka hótel, bílaleigur, veitingastaði o.s.frv. á gengisvísitölu 160 þá má bara hætta strax, ég vil benda á að útfluttningsgreinar voru reknar um árabil á gengisvísitölu 127-130 það er ekki svo langt síðan.

Í dag er staðan sú að gosflaska kostar á bilinu 290-380 kr. á bensínstöð, Hamborgara ræfill er að skríða í þrjúþúsundkallinn, þokkalegur bílaleigubíll kostar c.a. 25.000 dagurinn, sæmilegt hótel 25-125.000 nóttin, að stinga stórutánni í drullupoll á Reykjanesi 8000 kr. o.s.frv.

Það er deginum ljósara að ef ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi hrynur er það fyrst og fremst græðgi og okri þeirra sem að greininni standa að kenna en ekki gengi krónunnar. Ég held að fréttamenn hafi allt annað og betra að gera en hlusta á vælið í Friðriki Pálssyni.

UMMÆLI

Sambíó