„Ég elska Akureyri og Græna Hattinn“

„Ég elska Akureyri og Græna Hattinn“

„Ég ætla að fókusa á það að halda gott partý fyrir fólkið sem mætir,“ segir rapparinn Emmsjé Gauti í samtali við Kaffið.is en hann heldur tónleika á Græna Hattinum um helgina.

Gauti gaf út tvær plötur á síðasta ári (Vagg&velta og Sautjándi nóvember) og mun flytja vel valin lög af þeim báðum ásamt vinum sínum Birni Vali (DJ) og Kela úr hljómsveitinni Agent Fresco sem sér um að berja á trommusettið. Norðlenski rapparinn KÁ-AKÁ sér um upphitun og er miðasala í fullum gangi í Pennanum og á Tix.is

Þetta er ekki í fyrsta og alls ekki í síðasta skiptið rapparinn heldur tónleika á Græna hattinum á Akureyri en hann eins og margir aðrir tónlistarmenn hafa mikið dálæti að því að spila á staðnum.

„Ég elska Akureyri og ég elska Græna Hattinn. Það er eitthvað einstakt við andrúmsloftið á Græna Hattinum sem er erfitt að útskýra.“

Árið sem leið var mjög viðburðaríkt hjá Gauta en hann gaf, eins og áður segir út tvær plötur og var duglegur að koma fram. Hann er þó hvergi nærri hættur.

„Ég er byrjaður að semja nýtt efni en hef í raun ekkert ákveðið hvenær það á að koma út. Ég á ennþá inni nokkra singla af Sautjánda nóvember sem ég ætla að henda út áður en ég plana næstu skref. Markmiðið í ár er að spila á fleiri tónleikum en ég gerði í fyrra en þeir voru rétt rúmlega hundrað talsins.“

 

 

UMMÆLI

Sambíó