Einstefna við ísbúðina Brynju

Skipulagsráð Akureyrarbæjar samþykkti tillögu íbúa um að Aðalstræti verði einstefna, á umræddum kafla, til suðurs.
Umrætt svæði verður einstefna þangað til í september 2017 amk. en þá verður málið endurskoðað.
Svæðið sem um ræðir nákvæmlega er ca. frá syðri innkeyrslu á stæðinu norðan við Brynju og suður að gatnamótunum við Aðalstræti 16. Einstefnan verður til suðurs þannig að hægt er að taka hring á svæðinu og í burtu aftur án þess að keyra Aðalstrætið til enda. Á myndinni hér að neðan má sjá svæðið, örin merkir í hvaða átt einstefnan er og nær alla leið að bleika punktinum.

Aðalstræti verður einstefna í suður frá bílastæðum Brynju til Aðalstrætis 16.

Það var Inga Elísabet Vésteinsdóttir sem var í forsvari tillögunnar og hún segir í samtali við Kaffið að þessi breyting hafi verið löngu þörf.
,,Við íbúarnir á svæðinu nærri Brynju vorum orðin langþreytt á mikilli umferð og kaosinni sem myndast þarna þegar lagt er bílum beggja vegna götunnar þvers og kruss. T.d. hefur í tvígang verið bakkað á bílinn okkar hjóna og einu sinni ekið aftan á hann kyrrstæðan. Slík er kaosin. Íbúar sunnar við götuna hafa búið við hraðakstur suður götuna af sömu ástæðu, og þar geta bílar varla mæst.“ 

Inga Elísabet segir það þó skipta mestu máli að gæta að umhverfi barnanna.
,,Skítt með skemmdir og umferð, börnum fer fjölgandi í hverfinu og þau eru ekki í stakk búin til að læra á svona tilviljanakennda umferð. Því var öryggisatriði að koma skipulagi á umferðina, með hverju móti sem það mætti verða og lögðum við íbúarnir til að prófa einstefnu í þeim tilgangi að minnka líkur á slysum.“

Viðskiptavinir Brynju þurfa að venja sig á að eingöngu má keyra öðru megin héðar í frá. Mynd: pinterest.

 

Þá segir hún jafnframt að eflaust einhverjir verði óhressir með þessa breytingu og telji hana óþarfa.

,,Margir nota Lækjargötu til að stytta sér leið milli bæjarhluta, en þessi krókur hvetur fólk vonandi til að velja frekar stofnleiðir. En þeir sem efast um tilganginn mættu bara ímynda sér fjölsóttan ferðamannastað í sinni götu án skipulags á umferð. Ég hlakka til að sjá þessa tilraun í framkvæmd og svo bara sjáum við hverju hún skilar.“

UMMÆLI