Enn einn megrunarkúrinn

Ásgeir Ólafsson skrifar:

Til að átta sig á því hvernig matariðnaðurinn virkar, krefst það viðhorfsbreytingar.  Ekki lífsstílsbreytingar, heldur breytingu á viðhorfi okkar til matar. Við þurfum að vita hvernig iðnaðurinn virkar og við þurfum að vita hvernig skuli bregðast við sem neytendur.

En við þurfum ekki stór vopn til að berjast á móti.

Þau eru tvö.

Fyrst þá þurfum að fræða okkur og til viðbótar því þurfum við að gefa okkur tíma.

Orðið “matur” fyrir okkur mannfólkið er rétt hlutfall kolvetnis, prótíns og fitu ásamt vatni.

Sem hreinust fæða og mögulegt er.

En iðnaðurinn tekur upp á því að stýra ofan í okkur unna og sykraða vöru með markaðssetningunni “ódýrt og gott”.

Þeir gerast meira að segja svo grófir að nota “Fegurð, hreysti, hollusta” og birta svo mynd af vörum sem innihalda allt upp í 12 grömm af sykri í hverjum 100 ml. Þarna er ég að nefna gamla góða “holla” skyrið frá KEA með vanillubragði.

Það eru 12 grömm af sykri í hverjum 100 ml í vanilluskyri frá KEA sem flestir telja holla vöru. En til að setja þetta í samhengi þá eru 10.6 gr af sykri í hverjum 100 ml  af skaðvaldinum kóka kóla.

Þarna er einfaldlega kóka kóla betri kostur ef litið er til sykurmagns einungis.

Þú færð ekki prótín úr kókinu sem þú færð úr skyrinu.

En þegar öllu er á botninn hvolft, þá er það sykurinn sem stýrir iðnaðinum.

Sama hvort KEA hafi vöruna sín stútfulla af prótínum; “gott eftir æfingar”, “gott sem millimál”, þá er staðreyndin sú að það er meiri sykur í skyrinu en í kóladrykk sem þekktur er fyrir að innihalda allt of mikinn sykur.

Það er hægt að fá prótínin annars staðar frá en úr dísætri skyrvörunni.

Í framhaldi þessa pistils.

Skoðaðu aftan á umbúðir vörunnar sem þú ert að kaupa og skoðaðu þar “kolvetni: þar af sykurtegundir” og sjáðu sjálfur með berum augum hvað ég er að tala um.

Miðaðu svo við að Kóka kóla innheldur 10.6 gr í hverjum 100.

Ef þér þykir vænt um sjálfan þig, átt þú eftir að leggja vörur sem þú hefur verslað í mörg ár aftur í hillurnar.

ÞETTA heitir að vera sterkur neytandi. Sem veit hvað hann vill og lætur ekki bjóða sér hvað sem er.

Hér nefni ég aðeins eina vöru af mörg þúsund vörutegundum.

Það er góð og gild ástæða fyrir því að við léttumst ekki og grípum því til örþrifaráða líkt og að fara á megrunarkúra.

Við eigum ekki að fá meira en 10% af daglegri neyslu okkar úr sykri, sama í hvaða formi hann er.  Frúktósi, laktósi, súkrósi, sýróp, agave, kornsýróp …sama hvað þú kallar hann. Ekki láta plata þig þarna. Að frúktósi (ávextir og drykkir) og laktósi (mjólkurvörur) séu alveg í lagi í hvaða magni sem er.   Þetta fer eftir daglegri notkun þinni á syrki í hvaða formi sem er.  Sem skal ekki vera meiri en 10% af heildar hitaeiningum (he) þínum.

Ef þú borðar 2000 he á dag. Skal þetta vera um 200 he.  Eða 10%.

Mundu að í hverju grammi af sykri eru 4 hitaeiningar. Reiknaðu nú.

Staðreyndin er samt sú að við neytendur erum að fá 30 – 50% daglega úr sykri eins og þú borðar í dag.

Ef þú tekur þig á í eina viku eða lengur,  fer þetta mögulega í 20%.

Þá sleppir þú öllu gosi, öllu sælgæti.

Iðnaðurinn hefur fundið leið.

Að moka sykri í þig þannig að þú borðir meira en þú þarft.

Þannig að þeir selja meira af vöru sinni.

Þú lendir þannig í hringiðu eigin ráðaleysis og peningagræðgi þeirra.

Það sem við getum gert að fræða okkur og gefa okkur tíma að sigra iðnaðinn.

Þetta verðum við að vita sem neytendur.

Iðnaðurinn framleiðir svo ódýran mat og mikið sykraðann til að láta okkur borða meira og verða háð sæta bragðinu.

Sérstaklega þessum sem yngri eru. Eina bragðið sem þeir eiga að þekkja er sætt bragð þegar þeir fara að ala upp börnin sín og stofna heimili.

Unnin vara á sérhvert heimili!  Ódýrt og hollt?

Við mannskepnan erum sköpuð til að borða hreina fæðu í réttum hlutföllum.   Tökum kýrnar sem dæmi, orðið matur fyrir þær er, “gras”, en þær en fá oft mat sem er búinn til í sílóum blandaður af alls kyns rusli í stað þess sem þeir eiga að borða og gera þeim gott.

Fyrir hænurnar er orðið matur “ormar, korn, alls kyns gras, sandur ofl” en þær fá framleiddan mat í búrin sín sem gera þeim kleift að verpa 5x hraðar en venjulegt er talið.

Fyrir svínin er orðið matur “grænmeti, rótargræmneti, ávextir, egg ofl” en þeir fá blöndu af rusli sem þyngir þau hratt til að iðnaðurinn græði á þeim.

Ekkert þessa dýra nema þau sem lifa frjáls í skóginum eða á túnum geta fengið að borða það sem þau kjósa og er best fyrir þau.

Við mannfólkið erum engin undantekning í þessari breytu. Það er sömuleiðis verið að stýra ofan í okkur rusli.

Framleiðendur unninna matvæla sem við kaupum eru oft líka framleiðendur fóðursins sem fremleiddur er fyrir dýrin.   Er einhver möguleiki á að þeir blandi þessu öllu saman?

Framleiða grunn af einhverju fóðri fyrir hænurnar, svínin og kýrnar, setja það svo í unna matinn sem seldur er ódýrt til okkar?

Sb. kjúklinganagga, pylsur, og aðra unna vöru?

Við höfum ekki hugmynd um það.

Þarna getum við gripið inn sjálf.   Matvaran sem við höfum keypt, sem orðin er húsvinur heimilisins til margra ára, þarf allt í einu að víkja þegar þú skoðar innihald.

Það getur verið erfitt þegar þú þarft að taka meira en 80% út af þeirri fæðu sem þú hefur verslað inn á heimilið sl 10 ár eða svo og velja nýja betri.

En það eru til matvæli þarna úti sem hugsa um þinn hag.

En þær eru í miklum minnihluta.

Við hefðum gefið okkur það að það væru vörur eins og vörurnar hennar Sollu? Án þess að ég dragi eitthvað úr þeim, hafið þið kynnt ykkur þær vörur?

Þarna er augljós iðnaður ofar vörunni.  Hún fær líklega prósentur af hverri seldri vöru en iðnaðurinn ræður hvað er í henni.  Af því að hún framleiðir þetta ekki sjálf.

Ef hún er að framleiða þetta sjálf, af hverju mokar hún í þetta sykri?

Hún vill selja vöruna sína ekki satt?

Við erum hvergi óhullt

600.000 tegundir matvæla eru í Bandaríkjunum. Við flytjum mikið inn frá þeim. 500.000 þeirra matvæla eða 80% er kallað ruslfæði. ( junk food, bad for your health)

Henda má reiður á að yfir helmingur þeirra vara sem þú getur verslað hér á Íslandi er ruslfæði.  Þetta byggi ég einungis á rannsókn minni. Engu öðru.

Skoðaðu sjálfur aftan á umbúðirnar.

Að lokum

Enn einn megrunarkúrinn

Kjötkúrinn er vinsæll í dag af því að fólk missir hratt kíló og þeim líður vel á meðan.

“Mér hefur aldrei liðið eins vel”, segja kjötæturnar til að fá fleiri með sér í lið.  Er það vegna þess að sá hinn sami hefur verið of allt þungur í allt of mörg ár og er nú loksins orðinn léttur að honum líði svona vel?

Eða líður honum svona vel af því að hann hefur verið í kjörþyngd í öll ár og er allt í einu  orðinn fullur framkvæmdarorku og sefur betur og slíkt?

Ákvað að lifa á kjöti einungis til að öðlast það?

Á mínum þrjátíu ára ferli, þekki ég engan sem skráð hefur sig í megrunarkúr til að láta sér líða betur og ekkert annað. Þeir vilja allir léttast númer eitt og tvö.

Þeir sem skrá sig ganga í gegnum helvíti sumir til að skafa af sér nokkur kíló. Setja sig í matarfangelsi og koma svo öskrandi til baka eftir einhvern tíma. Friðlausir í allan mat.

Stjórnlausir.

Þessi kjötkúr er ekkert annað en enn einn mergrunarkúrinn. Þegar þú tekur út helsta orkugjafa líkamans til þess eins að létta þig, þá sé ég engan mun á því og  einhverju öðru óhófi.

Þeir eru svo duglegir að heimsækja fjölmiðla og ef ég þekki þennan markað rétt sem ég tel mig gera, þá er bók í vændum.

Mín tilfinning er haust 2018.

Vittu til.   Bókin kemur út.

Svona virkar þetta.

Þú ert fórnarlambið.

Iðnaðurinn níðist á þér.

Ef þú hélst það þá er ekki verið að hugsa um þig, eða þína vellíðan. Það er verið að hugsa um peningagræðgi annarra með eitthvað sem aðeins virkar til skamms tíma og það vita ALLIR sem koma að þessu.  Líka þú meira að segja.

Allt þetta fólk sem einungis er  að borða kjöt í dag, á eftir að borða kolvetni aftur. Það er deginum ljósara.

Myndu þeir sleppa því að drekka vatn?

Nei, líklega vegna þess að það er ekki hægt.

Það er heldur ekki hægt að sleppa því að borða aðalorkugjafa líkamans.

Því spyr ég:

Er einhver í þessum kjöthópi sem veit hvað gerist þegar þeir hætta á kúrnum? Þegar þeir byrja að borða kolvetni aftur eftir langt svelti?

Kolvetnissvelti.

Það hefur ekkert með hungur að gera.

Svarið er þetta:

Eftir því sem sveltið í aðalorkugjafa líkamans, kolvetni að þessu sinni, verður lengra, þá verður fallið brattara.

Það er engin leið að vita hvað gerist hjá einstakling þegar hann fær sér brauðsneið, bakkelsi, pizzu, eða bjór eftir slíkt svelti.

En það sem ljóst er að gerist,  er að hann fellur með líkamlegum og andlegum afleiðingum sem enginn hefur áhuga á að upplifa.

Hversu stórt fallið verður er algjörlega einstaklingsbundið. En eitt er víst, það verður fall.

Farðu varlega og hugsaðu þig tvisvar um.

Ég hef engan ávinning á þessum orðum mínum nema það eitt að vara þig við.

Hér höfum við sem sagt enn einn kúrinn sem byggir á því að borða bara kjöt.

Sem þúsundir stökkva á einhverra hluta vegna.

Af hverju virkar þetta alltaf á Íslandi og í Bandaríkjunum?

Er það möguleg ástæða að allt of margir Íslendingar vilja fara styttri leiðina? Þeir nenna ekki að leggja á sig það sem þarf.    Sem er mikil vinna.

Og svo verða þeir reiðir við mig fyrir vikið að minnast á það.

Ef ég fæ einn einstakling til að hætta á mergrunarkúrum þá er hluta markmiða minna náð.

Það er markmið mitt að fræða algjörlega ómeðvirkt, sem þýðir að segja hlutina eins og þeir eru. Ekki eins og þú vilt heyra þá og fá þig þannig til að gefa þér tíma sem við flest eigum nóg af.

Þú þarft að gera þetta sjálfur og þú þarft að leggja þig fram.

Þú þarft bara að vita það og þú þarft að meðtaka það.

Allt meira en tvö og hálft til þrjú og hálft kílógramma missir af fitu á einum mánuði er of mikið ef þú ert að reyna að taka af þér 20 kíló eða minna.

Ef þú ert að léttast hraðar en það, þá skaltu raða rauðum flöggum allt í kringum þig og þá leið sem þú ert að fara.

Fræddu þig, gefðu þér tíma og finndu aðra leið.

Ásgeir Ólafs.

UMMÆLI