„Erfitt að leita beint á bráðamóttökuna“ – Samtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða

Fjölmargir gengu úr ljósinu inn í myrkrið 12. maí á Akureyri.

Fjöldi fólks tók þátt í árlegri göngu Pieta-samtakanna: Úr myrkrinu inn í ljósið þann 12. maí sl. en gangan er ætluð til að vekja athygli á sjálfsvígum, sjálfsskaða og sjálfsvígsforvörnum. Gangan var haldin í fyrsta sinn fyrir 8 árum í Írlandi af Pieta House og var nú haldin hérlendis í þriðja sinn, á fjölmörgum stöðum, en á Akureyri í annað sinn.

PIETA Ísland eru samtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða en í fyrra var opnað Pieta hús í Reykjavík sem býður upp á ókeypis sálfræðiþjónustu og greiðan aðgang að þjónustu fyrir aðstandendur sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi. Fyrirmyndin er sótt til PIETA House á Írlandi en þar hefur um áratuga skeið náðst einstakur árangur í sjálfsvígsforvörnum með þeim úrræðum sem PIETA House býður einstaklingum upp á.

Erfitt að leita beint á bráðamóttökuna
Henný Lind Halldórsdóttir, ein þeirra sem stóð að göngunni á Akureyri, segir samtökin gríðarlega mikilvæg og að þau fari ört stækkandi með árunum.
„Þetta eru samtök fyrir fólk með sjálfsvígs- eða sjálfsskaðahugleiðingar og aðstandendur þeirra. Það getur reynst fólki erfitt í þessum hugleiðingum að leita beint á bráðamóttökuna og oft hefur það ekki orkuna í að leita uppi þjónustuna sem það þarf. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa aðgengilega aðstoð hjá sérhæfðum fagaðilum með reynslu í svona málum og þar kemur Pieta inn,” segir Henný um samtökin.

 

„Sjálfsvíg er ekkert annað en hjartaáfall sálarinnar”
Þetta er annað árið sem farið er í svona göngu á Akureyri en einnig var gengið í Reykjavík, á Neskaupstað og á Ísafirði í ár. Þá er gengið 5 km um miðja nótt en göngurnar byrjuðu allar kl. 04.00 og því gengið inn í dagsbirtuna með morgninum. Á Akureyri var gengið frá Ambassador Hvalaskoðun þar sem sr. Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, kom og sagði nokkur orð áður en lagt var af stað. Allir voru sammála um að þetta hafi verið falleg stund.
„Eurovision hafði kannski einhver áhrif að ekki eins margir og við hefðum viljað mættu í gönguna en þetta var samt ágætis hópur og vel að göngunni staðið á allan máta.“ Henný segir að orð Hildar hafi verið einstaklega vel valin og staðið með henni eftir gönguna. „Já, mér var mjög minnistætt það sem Hildur sagði áður en við lögðum af stað. Hún sagði að ef við þyrftum að sjúkdómsgreina þetta eins og allt annað þá væri sjálfsvíg ekkert annað en hjartaáfall sálarinnar. Þetta var svo vel að orði komist hjá henni,” segir Henný um fallega stund áður en gangan hófst.

VON. Úr ljósinu inn í myrkrið 2018.

Verða stærri með hverju árinu
Samtökin eru alltaf að stækka með árunum og mikill ávinningur hefur náðst nú þegar. Henný segir markmið samtakanna að koma upp Pieta húsi á Norðurlandi sem og annars staðar á landsbyggðinni svo allir geti leitað sér aðstoðar. Það er stuðningshópur hjá Pieta fyrir aðstandendur í Reykjavík einu sinni í mánuði og getur verið oftar ef þörf er á. „Markmiðið er að fá svona hús til Akureyrar og á landsbyggðina líka og þá með alla þá þjónustu sem er í boði í Reykjavík. Þetta er alltaf að stækka en til þess að geta boðið upp á ókeypis þjónustu þarf að fjármagna á einhvern hátt. Við höfum verið að gera það með göngunni og Reykjavíkurmaraþoninu einnig, en þar eru margir sem hlaupa í nafni samtakanna og safna áheitum,“ segir Henný. Hún hvetur alla til að kynna sér samtökin og þjónustuna sem þar er í boði að kostnaðarlausu. Hægt er að nálgast allar upplýsingar á heimasíðu félagsins.

Margt smátt gerir eitt stórt
Hægt er að leggja málefninu lið með frjálsum framlögum inn á heimasíðu félagsins en svo eru samtökin alltaf þakklát að fá fleiri hlaupara með í hópinn í Reykjavíkurmaraþoninu. Þá er gangan „Úr myrkrinu inn í ljósið“ með stærri tekjulindum samtakanna en næsta ganga verður í maí á næsta ári. „Margt smátt gerir eitt stórt. Við þurfum tíma til að stækka og vonandi kemur þetta norður sem fyrst líka. Ég veit að ég hefði viljað geta leitað til svona samtaka þegar ég þurfti á því að halda. Það er því miður svo litla aðstoð að fá fyrir aðstandendur nema með barningi við kerfið, langir biðlistar eru hjá sálfræðingum og lítið af stuðningshópum. Aðstandendur eiga það til að gleymast í þessum tilvikum en markmið Pieta er að vera til staðar á þessum erfiðu tímum,“ segir Henný að lokum.

Greinin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 31. maí.

Sambíó

UMMÆLI