Fjórir einstaklingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna líkamsárásar og frelsissviptingar

Eins og Kaffið greindi frá í gær átti sér stað umfangsmikil lögregluaðgerð í íbúðarhúsi við Strandgötu í gær. Lögreglan handtók fimm einstaklinga í gær vegna gruns um alvarlega líkamsárás og frelsissviptingu á rúmlega þrítugum karlmanni. Í nótt var sjötti einstaklingurinn handtekinn samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

,,Fjórir einstaklingar voru í dag úrskurðaðir í gæsluvarðhald af Héraðsdómi Norðurlands eystra að kröfu Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Var þeim gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 17. febrúar kl. 15:00. Þá var þeim gert að sæta einangrun á meðan rannsóknarhagsmunir standa til þess. Tveir þeirra lýstu því yfir að þeir hyggðust kæra úrskurðinn til Landsréttar í því skyni að fá hann felldan úr gildi.

Yfirheyrslur í dag yfir tveimur sakborningum, af þeim sex sem handteknir hafa verið vegna málsins, hafa nú leitt til þess að þeim tveimur hefur nú verið sleppt úr haldi.

Ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.


 Sjá einnig: 

Sjötti einstaklingurinn handtekinn í tengslum við alvarlega líkamsárás og frelsissviptingu

UMMÆLI