Færeyjar 2024
Kvennaathvarfið

Fleiri miðar til sölu í Hlíðarfjall

Fleiri miðar til sölu í Hlíðarfjall

Í morgun var tilkynnt að nýjar reglur hafi tekið gildi um skíðasvæði landsins í Covid-19 faraldri. Helstu breytingar eru þær að nú mega skíðasvæðin taka á móti 50% af hámarksgetu svæðanna og einnig má opna veitingasölu. Frá þessu er greint á vef bæjarins í dag.

„Víst er að margir munu taka þessu fagnandi enda liggur straumur landsmanna norður í vetrarfríi grunnskólanna og fyrr í vikunni var þá þegar orðið uppselt í Hlíðarfjall þessa helgi og fram í næstu viku. Nú verður hægara um vik að fara á heimasíðu Hlíðarfjalls og kaupa miða í Fjallið,“ segir í tilkynningu bæjarins.

Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli segir að strax hafi verið brugðist við með því að fjölga miðum sem í boði eru á hverri vakt.

„Auðvitað tökum við þessu fagnandi og höfum nú þegar sett 200-250 miða til viðbótar í sölu í hvert þeirra hólfa sem við bjóðum, þ.e.a.s. 500 miða yfir daginn, og þar að auki eru vetrarkortin komin aftur í sölu,“ segir Brynjar Helgi. „Verst er að burðargeta svæðisins og flutningsgeta Fjarkans eykst ekkert miðað við tveggja metra regluna og hætt við að biðraðir við lyfturnar lengist eitthvað. Hins vegar er auðvitað frábært að geta boðið fleirum að njóta frábærrar útivistar í Fjallinu.“

Mynd: akureyri.is/Þorgeir Baldursson

UMMÆLI