Framkvæmdir á aðstöðuhúsi Nökkva ganga vel

Framkvæmdir á aðstöðuhúsi Nökkva ganga vel

Framkvæmdir við nýtt aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva ganga vel. Verkið er á áætlun og er stefnt að því að húsið verði tilbúið til notkunar fyrri part sumars. Þetta kemur fram á vef bæjarins í dag.

Húsið eru rúmir 400 fermetrar að gólffleti. Stærstur hluti þess er bátaskýli með góðri aðstöðu til viðhalds og endurbóta á bátum. Í húsinu verða einnig fyrsta flokks búningsklefar með sturtuaðstöðu og þurrkherbergi fyrir blautbúninga. Á efri hæð er gert ráð fyrir félagsaðstöðu, þaðan sem verður hægt að ganga út á útsýnissvalir sem tengjast með stigum til tveggja átta.

„Þetta mun gjörbreyta aðstöðu siglingafólks hjá Nökkva og eru iðkendur sjósports á Akureyri afar spenntir að taka húsið í notkun,“ segir á vef bæjarins.

Byggingin er úr krosslímdum timbureiningum og klætt að utan með litaðri lerkiklæðningu og dökkri steinklæðningu. Verktaki er Sigurgeir Svavarsson ehf. og hefur starfsfólk fyrirtækisins unnið hörðum höndum að verkefninu undanfarna mánuði. Fyrir vikið er siglingahöllin, eins og margir kjósa að kalla húsið, farin að taka á sig mynd. Umsaminn afhendingartími er 15. júlí 2021.

Myndir: Akureyri.is

UMMÆLI