Fréttablaðið skýtur fast á Akureyringa – „Aðallega hljómar þetta svolítið biturt“

Fréttablaðið skýtur fast á Akureyringa – „Aðallega hljómar þetta svolítið biturt“

Á leiðarasíðu Fréttablaðsins í gær var pistill eftir Aðalheiði Ámundadóttur, blaðamann Fréttablaðsins, undir dálknum frá degi til dags. Pistillinn hefur vakið mikla athygli og gagnrýni á Akureyri en flestir eru á þeirri skoðun að pistillinn innihaldi hroka og fordóma gagnvart Akureyri og Akureyringum sérstaklega.

Pistillinn ber titilinn: Bærinn sem hætti að stækka og fjallar um að Akureyri sé að staðna bæði í vexti og þroska. Þar segir að aðkomumenn eigi erfitt uppdráttar á Akureyri, nái ekki að aðlagast samfélaginu og kynnist ekki heimamönnum. Þar er gefið í skyn að Akureyringar vilji ekkert með utanbæjarfólk að gera. Þar segir m.a. ,,Eru aðrir en hreinræktaðir Akureyringar bara ekki velkomnir til langdvalar? Og er Akureyri ekki of stór og of mikill höfuðstaður til að haga sér eins og lítið sjávarþorp sem kennir utanbæjarmönnum um allt sem miður fer?“

Akureyringar ósáttir við pistilinn og segja þetta þekkingarleysi og hroka 

Þó nokkrir Akureyringar hafa svarað pistlinum á Facebook og deilt sinni skoðun á honum. Flestir eru sammála um að þetta sé ekki rétt með farið. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, spyr á Facebook: „Er hugsanlegt að það votti fyrir fordómum og hroka í þessum skrifum?“ Rögnvaldur Már Helgason, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands og fyrrverandi fréttamaður segir: „Aðallega hljómar þetta svolítið biturt.“ Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, stjórnandi Circle Air og fyrrverandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir: „Þetta er nú fyrst og fremst heimóttarlega skrifað í gegnum rörið… Það vottar ekki fyrir yfirsýn eða þekkingu amk.“

Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri segir það alrangt að Akureyri hafi hætt að stækka. Þess þá heldur hefur Akureyri verið í ótrúlega stöðugum vexti í rúmlega hundrað ár segir Þóroddur og styður mál sitt með línuriti. Hann segir einnig að „Aðkomufólk, þ.e.a.s. fólk fætt annarsstaðra en á Akureyri er u.þ.b. 40% íbúafjöldans.

Bjó á Akureyri í 10 ár og þekkti enga Akureyringa 

Aðalheiður, höfundur pistilsins, svaraði einhverjum athugasemdum og segist sammála því að á Akureyri sé góð þjónusta, fallegt umhverfi og allt til alls. ,,En engu að síður tala mjög margir um hið lokaða samfélag sem erfitt er fyrir aðflutta að aðlagast og Akureyri er alveg sérstaklega þekkt fyrir þetta.“ Í frétt DV um málið kemur fram að hún sjálf bjó á Akureyri í 10 ár en segir að þrátt fyrir að hafa búið þar í áratug sé eini vinurinn sem hún hafi eignast verið Húsvíkingur: „Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi sjálf lagt mig alla fram, en ég held þetta sé ekki alveg úr lausu lofti gripið samt. Það eru bara of margir á þessari skoðun og segja þetta löst á annars frábærum og fallegum bæ.“

Pistilinn má lesa í heild sinni hér: 

Bærinn sem hætti að stækka 

„Íslendingar þurfa á því að halda að eiga aðra borg í hæfilegri fjarlægð frá Reykjavík. Þótt Akureyri sé ef til vill enn þá höfuðstaður Norðurlands virðist hún vera að staðna bæði í vexti og þroska og er að hrökkva niður í fimmta sæti yfir fjölmennustu þéttbýlisstaði landsins. Reykjanesbær virðist hafa meira aðdráttarafl með verksmiðjurnar sínar en Akureyri sem þó hefur fallegt umhverfi, góða þjónustu, háskóla og hreppafluttar ríkisstofnanir. Hvers á Akureyri eiginlega að gjalda?

Um óvelkomna utanbæjarmenn

Það hefur lengi loðað við Akureyri að aðkomumenn eigi þar erfitt uppdráttar. Þeir aðlagist ekki samfélaginu, kynnist ekki heimamönnum og fyrirtæki þeirra fari lóðbeint á hausinn gerist þeir svo bíræfnir að ætla sér að eiga viðskipti við heimamenn. Kannski er þetta mýta en eftir því sem Akureyri fellur niður um fleiri sæti á fólksfjöldalista íslenskra þéttbýlisstaða, þeim mun meira knýjandi verður heiðarleg naflaskoðun íbúa höfuðstaðar Norðurlands. Eru aðrir en hreinræktaðir Akureyringar bara ekki velkomnir til langdvalar? Og er Akureyri ekki of stór og of mikill höfuðstaður til að haga sér eins og lítið sjávarþorp sem kennir utanbæjarmönnum um allt sem miður fer?“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó