beint flug til Færeyja

Fullveldiskantata frumflutt í Hofi á laugardaginnFlytjendur verksins ásamt höfundi, Michael Jón Clarke.

Fullveldiskantata frumflutt í Hofi á laugardaginn

Þann 1. desember verður flutt glæný fagnaðarkantata „Út úr kofunum“ í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri þar sem kynslóðir og tónlistarstefnur mætast og fagna saman fullveldinu með norðlenskum ofurkröftum. Fullveldiskantatan er nýtt verk í söngleikjastíl eftir Michael Jón Clarke við texta Sigurðar Ingólfssonar. Verkið hlaut meðal annars styrk frá Afmælisnefnd fullveldis Íslands sem og frá Menningarsjóði Akureyrarbæjar.

Flytjendur eru Stefán Jakobsson, Þórhildur Örvarsdóttir, Gísli Rúnar Viðarsson, Hymnodia, Eyþór Ingi Jónsson, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, ungmennakórinn Æskuraddir fullveldisins, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og ungir strengjaleikarar í Strengjasveit fullveldisins. Höfundur texta er Sigurður Ingólfsson.

Verkið er ljóðræn útfærsla á þeim breytingum sem verða hjá þjóðinni frá því hún byrjar að líta hugdjarfari en fyrr til framtíðar og losa af sér hlekki og „klakabönd“ fortíðar. Þar er rakin, án þess að um beina sagnfræði sé að ræða, vegferð og hugarfarsbreytingar á tiltölulega stuttu en gríðarlega mikilvægu og kraftmiklu tímabili í lífi þjóðar, frá fullveldi til lýðveldis. Hver einsöngvari hefur sitt hlutverk sem ekki verður ljóstrað upp um hér en á vissan hátt má segja að um sé að ræða einkasamtal þjóðarinnar við sjálfa sig.

Tónleikarnir verða í Hamraborg í Hofi á Akureyri á laugardaginn, á sjálfum 100 ára afmælisdegi fullveldisins, klukkan 20.00.

Michael Jón Clarke, tónskáld og höfundur Fullveldiskantötunar, verður gestur Maríu Pálsdóttur í næsta Föstudagsþætti á N4 þar sem hann fjallar um verkið og undirbúninginn. N4 frumsýndi að því tilefni myndbandið sem tekið var upp við tökur á verkinu sem má horfa á hér að neðan.

Sambíó

UMMÆLI