Fundur fólksins haldinn í fyrsta skipti á Akureyri

Menningarhúsið Hof. Mynd: Auðunn Níelsson.

Fundur Fólksins er lýðræðishátíð sem fer fram um helgina í Menningarhúsinu Hofi. Þetta er þriðja hátíðin sem haldin verður en jafnframt sú fyrsta sem er haldin utan höfuðborgarsvæðisins.
Fundur fólksins sækir innblástur í sambærilegar hátíðir á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum en hátíðin er haldin með það markmið að virkja lýðræðisþátttöku almennings og skapa vettvang til þess að ræða málefni samfélagsins.

Hátíðin hefst á föstudaginn 8. september kl. 10 en þó verður hátíðin formlega sett kl. 12.
Margir stjórnmálaflokkar, samtök, stéttarfélög og stofnanir koma til með að taka þátt og vera með fjölbreytt málþing, fundi og fleira. Þá er líka sérstaklega einblínt á það að hafa dagskránna sem líflegasta og því eru margir frægir listamenn sem koma eitthvað fram yfir helgina, þ.á.m. Saga Garðarsdóttir, tónlistarmaðurinn KK, Vandræðaskáld, Ævar Þór Benediktsson, Arnar Már Arngrímsson, Helga Kvam, Lára Sóley Jóhannsdóttir, Þórhildur Örvarsdóttir og fleiri.

Dagskránna alla í heild sinni má nálgast hér, á heimasíðu hátíðarinnar. Allir geta fundið einhvern fund eða málþing sér við hæfi, en allt eru þetta mjög fjölbreyttar yfirskriftir.
Svo einhver dæmi séu nefnd eru hér að neðan nokkur málþing sem verða á Fundi fólksins um helgina:

Diskósúpa
Eldað saman úr mat sem annars hefði verið sóað við dillandi tóna DJ Vélarnar.

Allir elska SKAM!
Allir elska SKAM-þættina norsku. Þeir eru ekki bara vel gerðir og veita frábæra
innsýn í líf ungs fólks í dag heldur kenna þeir okkur líka sitthvað um norska og norræna dægurmenningu og eru afbragðs norskukennsla. Kolbrún Ýrr Bjarnadóttir og Eyrún Huld Haraldsdóttir, kennarar við MA, ræða þættina við ungt fólk á Akureyri.

Af hverju borga ég í stéttarfélag? – Ungt fólk og stéttarfélög
Allt sem þig hefur langað að vita um stéttarfélög!
Hvaða þjónustu getur þú fengið hjá þínu stéttarfélagi, hvernig getur það hjálpað þér ef þú þarft á aðstoð að halda og hvernig getur þú haft áhrif í þínu stéttarfélagi.

Staða íslenskra fjölmiðla
Bogi Ágústsson, formaður Norræna félagsins, heldur erindi um stöðu íslenskra fjölmiðla, útbreiðslu þeirra, traust, almannaþjónustu, breytingar á fjölmiðlun, ógnanir, málssóknir vegna meintra meiðyrða og falskar fréttir. Hann ræðir einnig breytingar á fréttaöflun og dreifingu frétta og helstu vandamál sem við er að glíma í þeim efnum.

Heilsugæslan og sjúkraþjálfun
Vaxandi eftirspurn er eftir aukinni þverfaglegri nálgun innan heilsugæslunnar á Íslandi,
sem á að vera fyrsti viðkomustaður almennings í heilbrigðiskerfinu. Gögn sýna að yfir 40% þeirra sem leita til heilsugæslustöðva landsins koma vegna stoðkerfisvandmála og fjölmargir leita til þeirra vegna afleiðinga lífstílssjúkdóma af ýmsu tagi. Þekking sjúkraþjálfara á þessum málefnum er yfirgripsmikil og myndi nýtast afar vel í framvarðasveit heilsugæslunnar.

Lækkun kosningaaldurs
Rýnt verður í stöðu ungs fólks í íslensku samfélagi,
minnkandi stjórnmálaþátttöku og hugmyndir um lækkun kosningaaldurs.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til 2030 – ertu með?
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til 2030 er unnin í öflugu samstarfi stjórnsýslunnar,
sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra hagaðila ásamt því að allir geta sent inn tillögur að aðgerðum sem miða að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Ímálstofunni munum við kynna vinnuferlið við gerð áætlunarinnar. Við munum einnig kynna fyrstu drög hennar og bjóða upp á umræður um þau.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó