Fyrri dagur Airwaves gekk eins og í sögu

Mammút gerðu það gott í Hofi á fyrsta degi Airwaves á Akureyri.

Eins og áður hefur komið fram er tónlistarhátíðin Iceland Airwaves í fullum gangi um þessar mundir og er hátíðin í fyrsta skiptið haldin einnig á Akureyri. Gífurlegt magn hljómsveita og tónlistarfólks kemur fram á hátíðinni bæði off-venue og on-venue.
Hátíðin byrjaði í gær með pompi og prakt á Götubarnum þar sem útvarpsstöðin The Current sendi beint út frá barnum. Viðburðurinn var off-venue og því öllum aðgengilegur án endurgjalds. Þetta féll greinilega vel í kramið hjá tónleikaþyrstum þar sem stappað var af fólki meðan á dagskránni stóð.
Það voru 200.000 naglbítar, Mammút, Ásgeir Trausti og Hildur sem komu fram og tóku nokkur lög meðan þáttastjórnendur spurðu þau spjörunum úr milli laga.

Þáttastjórnendurnir vildu ólmir vita hvernig það stæði á því að á litla Íslandi væri svona svakalega mikið af góðu tónlistarfólki og Hildur svaraði þessu svona líka kostulega. Kaffið tók sér það bessaleyfi að þýða yfir á íslensku.
,,Af því að við erum svo fá þá eru allir að keppast við að gera eitthvað nýtt. Þú getur ekki verið að gera svipað eða það sama og einhver annar því þá tekur enginn eftir þér. Svo eru líka engin stór plötufyrirtæki á Íslandi eins og þekkist úti þar sem tónlistarfólk fær stundum ekki að ráða alveg hvernig það vill hafa lögin sín. Hér eru allir að reyna að meika það upp á eigin spýtur þannig að eftir þeim sé tekið og gera í rauninni bara það sem þau vilja eftir sinni eigin sannfæringu.“ 

Jói P. og Króli voru stjörnur kvöldsins.

Mikið var einnig um að vera á Backpackers og í verslun Cintamani þar sem fjölmargir tónlistamenn komu fram.
Um kvöldið tók svo við glæsileg dagskrá fyrir hátíðargesti en langflestir voru haldnir alvarlegum valkvíða um hvar ætti að vera, á Pósthúsbarnum, á Græna hattinum eða í Hofi, þar sem svo margt var í boði.

KÁ-AKÁ kom stuðinu af stað á Pósthúsbarnum með sinni einstöku sviðsframkomu og hitaði fólkið upp fyrir næsta eftirsótta atriðið, á Græna hattinum, þar sem nýliðarnir Jói P. og Króli komu fram. Þeir trylltu gjörsamlega lýðinn á Græna Hattinum og það er alls ekkert ósennilegt að B-O-B-A hafi ómað um göngugötuna þegar salurinn stal söngnum af Króla og tók það í sínar eigin hendur að syngja lagið. Breska hljómsveitin Mura Masa kom mörgum í opna skjöldu þegar þau lokuðu kvöldinu á Græna Hattinum með hreint út sagt magnaðri frammistöðu sem skildi tónleikagesti eftir í sárum að kvöldið þyrfti að enda.

Á meðan var Mammút að negla sína frammistöðu algjörlega í Hofi með sinni einstöku innlifun og allur salurinn sat dolfallinn á meðan. 200.000 naglbítar, Hildur og Ásgeir Trausti áttu svakalegar frammistöður í Hofi og tónleikagestir þar voru í skýjunum með kvöldið.

Í kvöld, föstudag, er seinna kvöldið á Iceland airwaves á Akureyri og verður spennandi að sjá hvort að hægt verði að toppa þetta fyrsta kvöld hátíðarinnar á Akureyri. Það verður sannarlega ekki auðvelt.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó