Prenthaus

Fyrsta plata GRINGLO komin út

Fyrsta plata GRINGLO komin út

Hljómsveitin GRINGLO hefur nú gefið frá sér sína fyrstu plötu. EP platan eða „þröngskífan“ inniheldur 6 lög en platan hlaut styrk frá hljóðritasjóði og er fyrri partur af heildarverki sem mun koma út á næsta ári.

Platan, sem ber nafnið „From Source“ eða „Frá uppsprettunni“, er eins og áður segir frumraun hljómsveitarinnar. Lög og textar plötunnar eru samin af Ivani Mendez á tímabilinu 2015-2017 en útsetningar fyrir hljómsveit eru unnar í sameiningu með hljómsveitameðlimum en einning með hjálp gestaspilara í hljóðverinu.

„Lögin á þessari plötu standa hjarta mínu mjög nærri. Í ársbyrjun 2014 fékk ég taugaáfall sem fékk mig til að enduhugsa líf mitt og allan minn tilgang alveg frá grunni. Það var erfitt að byggja sig upp aftur eftir áfallið en ég var staðráðinn í að finna innri frið. Sálarkrísan hrinnti af stað ákveðinni atburðarás og andlegu ferðalagi sem leiddi mig á ýmsar framandi slóðir næstu árin. Allt frá seiðkörlum í amazon skóginum, yoga meisturum á Indlandi og til skógarmunka í suð-austur Asíu. Ég hitti marga kennara á leið minni en tónlistin varð minn stærsti kennari. Lögin á plötunni sækja beinan innblástur í þetta ferðalagið, fólkið sem ég hitti á leiðinni og lexíurar sem ég lærði.“  segir Ivan Mendez, stofnandi og söngvari hljómsveitarinnar, í samtali við Kaffið.

Hljómsveitina sjálfa skipa þeir Ivan Mendez (söngur,gítar), Guðbjörn Hólm (bassi, bakraddir), Guðjón Jónsson (píanó,hljómborð) og Arnar Scheving (trommur, slagverk).  En ásamt þeim félögum komu góðir gestir til hjálpar við hljóðritun plötunnar.

Þar má nefna: Andrea Gylfadóttir (Selló), Haukur Pálmason (slagverk), Hjörleifur Örn Jónsson (klassískt slagverk), Kristján Edelstein (Rafmagnsgítar), Gert-Ott Kuldparg (sópran sax), Edda Guðný Örvarsdóttir(Tenór sax), Helgi Svavar Þorbjörnsson (Horn), Þorkell Ásgeir Jóhannsson (Básúna),  Þórhildur Örvarsdóttir (vocal producer).

Platan er tekin upp í hljóðveri Tónlistarskólans í Menningarhúsinu Hofi og er hluti af skólaverkefni Ivans á brautinni Skapandi tónlist. Fyrstu tvo lög plötunnar voru hljóðrituð seint á síðasta ári en restin var síðan kláruð á þessu ári.

 „Það var pressa á mér að klippa og skila öllum upptökum fyrir lok skólaársins. Það eru auðvitað kostir og gallar við það að vinna undir tímapressu. Kostirnir eru þeir að  það gefur manni mikinn kraft og oft verða til hlutir sem manni hafði ekki órað fyrir. Með þessu móti finnst mér ég oft læra mest, með því að setja sjálfan mig í aðstæður sem ég er ekki alveg viss um að ég höndli og síðan bara vinn ég mig í gegnum þær. Ef maður horfir í baksýnisspegilinn þá eru kanski einhverjir hlutir sem maður hefði geta gert öðruvísi eða spáð meira í, það er kanski gallinn við tímapressuna. Síðan er auðvitað hægt að halda áfram að spá í útsetningum og smáatriðum út í hið óendanlega, en maður verður að sleppa tökum af sköpunarverkinu á einhverjum tímapunkti. Fullkomnunaráráttan gerir manni oft erfitt fyrir í þeim efnum,“  segir Iva um vinnslu plötunnar sem nú er komin út.

Platan er nú aðgengileg á Spotify en seinni hluti verksins mun líta dagsins ljós á næsta ári og hyggst þá sveitin gefa út báða hlutana sem eina breiðskífu á bæði CD og vinyl í takmörkuðu upplagi.

„Í seinni hluta verksins held ég áfram að kafa dýpra í þetta ferðlag og að miðla speki hjartans, speki sem er aðgengileg öllum þeim sem kunna að hlusta með opnu hjarta og kyrrum hug,“ segir Ivan.

Upptökustjóri plötunar eru Sigfús Jónsson og Haukur Pálmason. Hljómblöndun og lokavinnsla var í höndum Hauks Pálmason.

Sambíó

UMMÆLI