Intersand MaxCare 12 kg | Gæludýr.is

Fyrsta Ringómótið haldið á AkureyriLjósmynd: Akureyrarbær.

Fyrsta Ringómótið haldið á Akureyri

Virk efri ár og Félag eldri borgara á Akureyri (EBAK) hélt nýverið fyrsta ringó-mótið á Akureyri í Íþróttahöllinni. Níu lið mættu til leiks og alls fimmtíu þáttakendur yfir 60 ára aldri. Þrjú lið mættu frá Glóð í Kópavogi, eitt frá UMSB í Borgarfirði, eitt frá USVH á Hvammstanga, þrjú frá EBAK og eitt blandað lið frá EBAK og HSK. Þetta kemur fram á heimasíðu Akureyrabæjar þar sem segir einnig:

Ringó svipar til blaks og er spilað á blakvelli en í stað bolta er spilað með tveimur gúmmíhringjum sem svífa í loftinu samtímis. Liðin kasta sem sagt hringjunum yfir blaknet og reyna að skila þeim í gólfið hjá andstæðingunum, en í liði geta verið allt frá tveir og upp í sex þátttakendur. Aðeins má grípa hringina með annarri hendi og kasta með sömu hendi til baka, en huga þarf að því að hringurinn má hvorki flökta né halla um of.

Á ringó-mótinu á Akureyri var spilað á þremur völlum með tólf leiki á hverjum velli, með fjórum 3ja leikja lotum auðvitað með ávaxta- og kaffihléum á milli! Allir spiluðu við alla; alls 36 leikir. Svo var öllum boðið í kjötsúpu hjá EBAK í Bugðusíðu á eftir. Fólk virtist ánægt með mótsfyrirkomulagið; góður tími til að blanda geði og samgleðjast í bland við keppnisleiki. Ekkert lið skoraði færri en rúmlega hundrað stig á mótinu og því má fullyrða að allir hafi gengið frá mótinu sem sigurvegarar.

Ringó hefur verið spilað á Landsmótum UMFÍ síðan 2009 en upprunalega þróaði Pólski skylmingakappinn Włodzimierz Strzyżewski íþróttina sem var fyrst formlega spiluð þarlendis árið 1959. Á Ólympíuleikunum í París 1968 var sýningarleikur og þá kynnt sem „Pólskt Ringó.“ Það náði að vísu ekki festu á leikunum en útbreiðslan hélt áfram og í dag eru haldin regluleg Evrópu- og heimsmeistaramót.

Ringó er spilað á miðvikudögum kl. 11.30 í Síðuskóla og verður áfram í boði þar næstu þrjár vikurnar.

Miðvikudaginn 19. júní byrjar „strandringó“ EBAK og Virkra efri ára sem gaf góða raun í fyrra en þá er spilað ringó á strandblaksvöllunum í Kjarnaskógi. Allir eru velkomnir og vert að taka fram að þátttaka er ókeypis.

UMMÆLI

Sambíó