Fyrstu gestir sjóbaðanna á Húsavíkurhöfða njóta sín í botn – „Móttökurnar hafa verið ótrúlegar,“ segir framkvæmdastjóri Sjóbaðanna

Fyrstu gestir sjóbaðanna á Húsavíkurhöfða njóta sín í botn – „Móttökurnar hafa verið ótrúlegar,“ segir framkvæmdastjóri Sjóbaðanna

Sjóböðin á Húsavík voru formlega opnuð föstudaginn 31. ágúst eftir nokkurra ára undirbúning og tæpt ár af framkvæmdum. Sjóböðin hafa verið í undirbúningi frá árinu 2011 en árið 2014 sótti félagið Sjóböð ehf. um lóð efst á Húsavíkurhöfða. Framkvæmdir hófust í október í fyrra en áætlað er að kostnaðurinn hljóði upp á 500 til 600 milljónir króna.

Fólk hefur lengi baðað sig upp úr vatninu í Húsavíkurhöfða
Öldum saman hefur jarðhitinn norðan við Húsavík verið þekktur og nýttur til baða og þvotta. Þegar borað var eftir heitu vatni á Húsavíkurhöfða upp úr miðri síðustu öld kom upp vatn sem reyndist vera heitur sjór sem var of steinefnaríkur til upphitunar húsa. Allt frá árinu 1992 hafa menn og konur geta baðað sig í heitu sjóbaði á Húsavíkurhöfða í gömlu ostakeri sem fékkst á sínum tíma í Mjólkursamlaginu. Þetta hafa margir nýtt sér óspart í gegnum árin og margir jafnvel á hverjum einasta degi.

Böðin hentug til heilsubóta fyrir þá sem glíma við húðkvilla
Vatnið í GeoSea sjóböðunum kemur úr tveimur borholum sem þegar eru til staðar og er einstaklega steinefnaríkt. Húsvíkingar hafa notað vatnið árum saman sér til heilsubótar en vatnið nýtist þeim sérstaklega vel sem glíma við einhverja húðkvilla eins og Psoriasis. Vatnið er við kjörhitastig, eða í kringum 38-39 gráður. Ekki er þörf á hreinsiefnum eða búnaði í sjóböðunum því stöðugt gegnumstreymi vatns frá borholum, milli lauga, yfir barma þeirra og út í sjó er nóg til að halda heilbrigði vatnsins innan tilskilinna heilbrigðismarka.

Gestir nutu sín í botn um helgina
Sigurjón Steinsson, framkvæmdastjóri sjóbaðanna, segir aðsóknina um helgina hafa verið góða og að móttökurnar séu framar björtustu vonum þeirra sem að böðunum standa. „Aðsóknin er búin að vera flott, ekki of mikið af fólki svo að gestir hafa algjörlega fengið að njóta sín. Móttökurnar eru búnar að vera alveg ótrúlegar, allir alveg gríðarlega sáttir með aðstöðuna og útsýnið. Þetta er nefnilega alveg stórfenglegt, þó ég segi sjálfur frá.“

„Það á að vera ákveðin kyrrð og ró í þessu“
Aðgangseyrir í sjóböðin er 4.300 kr. fyrir fullorðna en hægt er að kaupa árskort á hagstæðu verði að sögn Sigurjóns. Í böðunum er gufubað, skáli þar sem boðið er upp á léttar veitingar og sérstök veitingalaug þar sem hægt er að kaupa drykki meðan maður dvelur í lauginni. Þá er helsta markmiðið að gestir fái að njóta útsýnisins en úr böðunum er glæsilegt útsýni yfir Skjálfandaflóann og Kinnarfjöll. „Við hleypum ekki meira en 160 ofan í í einu þó svo að það sé pláss fyrir töluvert fleiri. Við viljum ekki að fólk sé alveg öxl í öxl. Hluti af upplifuninni er að fá að upplifa náttúruna og sjá útsýnið í allri sinni dýrð. Það á að vera ákveðin kyrrð og ró í þessu öllu saman,“ segir Sigurjón.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó