Garðar Kári Garðarsson í öðru sæti í Kokkur ársins

Garðar Kári Garðarsson.

Úrslitakeppni í Kokkur ársins var haldin í Hörpu síðastliðið laugardagskvöld. Þar voru fimm matreiðslumenn sem kepptu til úrslita en þeir komust áfram í lokakeppnina eftir undanúrslitin fyrr í vikunni.
Garðar Kári Garðarsson var eini Akureyringurinn í keppninni og hafnaði í öðru sæti en Garðar hefur starfað sem yfirkokkur á Strikinu undanfarin ár ásamt því að æfa með kokkalandsliðinu. Hafsteinn Ólafsson (Sumac grill+drinks) vann titilinn Kokkur ársins og Víðir Erlingsson (Lónið) hreppti þriðja sætið. Rúnar Pierre Heriveaux (Grillið á Sögu) og Bjarni Viðar Þorsteinsson (Sjávargrillinu) kepptu einnig.

Garðar Kári hefur áður keppt í Kokkur Ársins og lent í þriðja sæti og hann segir ekkert annað í stöðunni en að koma aftur seinna og hreppa vonandi gullið.
,,Það var heiður að keppa með þessum strákum, þó svo að annað sæti sé erfitt þá er ég mjög glaður. Þetta var skemmtilegt og mjög lærdómsríkt. Svo kemur maður bara sterkari næst!“ segir Garðar Kári um annað sætið.

Það er Klúbbur matreiðslumeistara sem stendur fyrir hinni árlegu keppni um titilinn Kokk ársins. 11 manna dómnefnd fór yfir kokkakúnstir þeirra fimm matreiðslumeistara sem komust í úrslit en keppendur fengu aðeins að vita hráefnisvalið fyrir keppnina um hádegi sama dag og hún fór fram, svo að ekki væri hægt að undirbúa sig fyrir fram.
 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó