Geta pabbar ekki grátið? Reynsla karlmanna af kynferðislegu ofbeldi í æsku

Sigrún Sigurðardóttir

Sigrún Sigurðardóttir

Á félagsvísindatorgi í dag, miðvikudag kl. 12.00-12.50, mun Sigrún Sigurðardóttir MSc fjalla um reynslu karlmanna af kynferðislegu ofbeldi í æsku og eiga samtal við áheyrendur um efnið.

Kynferðislegt ofbeldi í æsku getur haft víðtæk og alvarleg áhrif á heilsufar og líðan karla og kvenna. Kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum er betur falið og minna rannsakað en gegn stúlkum. Drengir segja sjaldan frá ofbeldinu og lifa oft í þrúgandi þögn til fullorðinsára. Karlar með slíka reynslu upplifa oft fordóma frá samfélaginu, að vera einhvers konar jaðarhópur og geta karllæg gildi, karlmennskuímynd eða staðalímyndir haft áhrif þar á. Afleiðingarnar geta komið fram sem sálræn, líkamleg og félagsleg vandmál, með sjálfskaðandi hegðun, afbrotum, fíkn, sjálfsvígshugsunum og sjálfsvígum. Verkefnið „einn blár strengur“ er vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum sem á uppruna sinn í Bandaríkjunum. Einn blár strengur af sex strengjum í gítar táknar að einn af hverjum sex drengjum verða fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku. Verkefnið er nú komið í Háskólann á Akureyri og verður ráðstefna um þetta efni í Háskólanum á Akureyri í maí 2017.

Sigrún Sigurðardóttir er hjúkrunarfræðingur og lögreglukona að mennt, MSc. í heilbrigðisvísindum frá Háskólanum á Akureyri og doktorsnemi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Torgið verður í stofu M-102 og er opið öllum án endurgjalds.

Sambíó

UMMÆLI