Múlaberg

Glæðum Grímsey framlengt og nýr verkefnastjóri tekinn við

Glæðum Grímsey framlengt og nýr verkefnastjóri tekinn við

Stjórnvöld í gegnum Byggðastofnun hafa samþykkt framlengingu á verkefninu Glæðum Grímsey um tvö ár eða út árið 2022. Glæðum Grímsey er byggðaþróunarverkefni sem er hluti af Brothættum byggðum og hefur Arna Björg Bjarnadóttir nú verið ráðinn nýr verkefnastjóri.

Veittir eru verkefnastyrkir á vegum Brothættra byggða til þróunarverkefna og annarra samfélagseflandi verkefna í  þeim byggðarlögum sem taka þátt í verkefninu. Markmiðið með verkefninu brothættum byggðum er að styrkja byggðina í Grímsey og meðal annars fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra.

Byggðastofnun mun leggja verkefninu til fjármuni úr Brothættum byggðum, auk þess sem Akureyrarbær og SSNE leggja verkefninu lið og annast umsýslu þess ásamt Byggðastofnun. Þáttur íbúa í Grímsey við að styrkja samfélagið með ýmsum framfaraverkefnum og dugnaði sínum vegur þó þyngst í verkefninu. Þetta kemur fram á vef Byggðastofnunar.

Arna Björg Bjarnadóttir hefur tekur við af Karen Nótt Halldórsdóttur sem nýr verkefnastjóri Glæðum Grímsey en Karen verður verkefninu áfram innan handar sem fulltrúi íbúa í verkefnisstjórn.

Arna telur sóknarfæri landsbyggðanna og eyjanna í kringum Ísland mikil. „Þetta eru svæði sem eru einstök á heimsmælikvarða. Við þurfum einfaldlega að þora að hugsa öðruvísi, koma auga á tækifærin og skora það sem einhverjum kann að þykja ómögulegt á hólm. Við megum síðan ekki gleyma að láta heiminn vita af okkur,” segir Arna.

Arna hefur þegar hafið störf en hún verður með starfsstöð á skrifstofu SSNE á Akureyri auk reglulegrar viðveru í Grímsey.

UMMÆLI

Sambíó