Glatað tækifæri til gagnsæis

Halldór Arason

Halldór Arason skrifar

Janúar 2016 samþykkti bæjarráð Akureyrabæjar sölu á hlut bæjarfélagsins í fjárfestingafélaginu Tækifæri, en félagið fjárfestir í nýsköpun á Norðurlandi. Salan fór leynt, en hún var skráð í trúnaðarbók bæjarráðs og komst ekki upp um söluna fyrr en fyrrverandi bæjarfulltrúi ljóstraði upp um þennan verknað. Í kauptilboðinu sem bæjarráð hefur nú náðsamlegast gert opinbert, kemur fram að kaupandinn, KEA, hafi eingöngu óskað eftir trúnaði um kauptilboð sitt. Leyndin sem var yfir sölunni er því óskiljanleg.

Nú þegar hefur bæjarfulltrúi Framsóknar borið af sér sakir um spillingu, og fulltrúi Vinstri Grænna hefur borið við vanþekkingu. Eftir því sem ég kemst næst hafa aðrir bæjarráðsfulltrúar ekki séð sér fært að tjá sig um málið, þar á meðal varaformaður Samfylkingarinnar, Logi Már Einarsson. Ég vil því nota þennan vettvang og spyrja varaformann Samfylkingarinnar, Loga Má Einarsson, og aðra sem að málinu komu, eftirfarandi spurninga;

Af hverju hafið þið ekki séð ykkur fært að útskýra afstöðu ykkar frekar í þessu máli?
Af hverju teljið þið eðlilegt að styðja við jafn ógagnsæja stjórnsýslu og raunin varð?
Af hverju voruð þið fylgjandi því að leyna bæjarbúa þessari sölu?
Af hverju studduð þið ekki við gagnsæja stjórnsýslu og heiðarleg vinnubrögð?

Halldór Arason
Höfundur er Akureyringur

UMMÆLI