Gleðipinnar og Stefna hugbúnaðarhús saman í stafrænt ferðalag

Gleðipinnar og Stefna hugbúnaðarhús saman í stafrænt ferðalag

Veitinga- og afþreyingarfyrirtækið Gleðipinnar og Stefna hugbúnaðarhús eru á leið í samstarf.

Félögin hafa samið um að Stefna annist stafræna vegferð og þjónustu við fyrirtæki á vegum Gleðipinna. Um er að ræða viðamikið og metnaðarfullt samstarf sem felur í sér ráðgjöf, hönnun, forritun, hýsingu og innleiðingu á afgreiðslukerfum og vildarkerfi fyrir alla veitingastaði Gleðipinna.

„Þetta er virkilega spennandi og áhugavert ferðalag sem við erum að leggja í með Stefnu. Eitt af því sem við lögðum til grundvallar þegar við sameinuðumst í Gleðipinnum var að verða framúrskarandi í stafrænum dreifileiðum og afgreiðslulausnum, þar sem áherslan er á sjálfsafgreiðslu og að upplifun notandans verði sem best. Það er stór þáttur í því að auka ánægju viðskiptavina og við treystum engum betur en Stefnu til að fara í þetta ferðalag með okkur,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda og talsmaður Gleðipinna.

Stefna hugbúnaðarhús var stofnað 2003 og frá upphafi hefur áhersla verið lögð á víðtæka þjónustu í upplýsingatækni og hugbúnaðarþróun á sviði veflausna. Starfsmönnum hefur fjölgað ört síðustu misseri og eru nú rúmlega 30.

Stefna leggur í dag höfuðáherslu á að hámarka ánægju, afköst, sjálfvirkni og arðsemi viðskiptavina sinna. „Við erum virkilega spenntir fyrir samstarfinu við Gleðipinna. Þeir eru með fjölbreytt og spennandi vörumerki, bæði í veitingum og afþreyingu, og því er þetta skemmtileg áskorun fyrir okkar fólk. Starfsmenn Stefnu koma úr öllum áttum hugbúnaðargeirans og frá upphafi höfum við keppt að því að vinna okkur inn traust viðskiptavina með áreiðanleika, þjónustulund og hugvitssömum lausnum“, segir Guðlaugur Arnarsson, viðskiptaþróunarstjóri Stefnu. Fyrirtækið hefur unnið að fjölmörgum sérlausnum fyrir fyrirtæki og stofnanir, veitt ráðgjöf um rekstur upplýsingakerfa og tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum.

Gæðin eru upphaf og endir alls

Vörumerkin undir hatti Gleðipinna eru American Style, Shake&Pizza, Saffran, Blackbox, Eldsmiðjan, Aktu taktu, Hamborgarafabrikkan og Keiluhöllin Egilshöll. „Aðaláhersla okkar er og verður á gæði matar og þjónustu. Það er upphaf og endir alls. En hluti af því að skapa jákvæða heildarupplifun fyrir viðskiptavini er að verða í fararbroddi þegar kemur að stafrænni þróun og afgreiðslulausnum. Það eru í raun bara umbúðir utan um kjarnavöruna; allt tengist þetta og nú eru sannarlega áhugaverðir tímar á veitingamarkaði og þróunin hröð. Með samstarfinu við Stefnu verða allir ferlar einfaldaðir þegar kemur að pöntunum og afgreiðslu. Framtíðin ber það með sér að starfsmenn verða meira í þjónustuhlutverki og minna í hefðbundinni, beinni afgreiðslu eins og við þekkjum hana,“ segir Jóhannes. 

UMMÆLI