Grímsi og Hrannar framlengja við KAMynd: Knattspyrnufélag Akureyrar/ka.is

Grímsi og Hrannar framlengja við KA

Bræðurnir Hallgrímur Mar og Hrannar Björn Steingrímssynir hafa báðir framlengt samning sinn við knattspyrnudeild KA. Þeir eru nú samningsbundnir félaginu út sumarið 2023.

„Báðir eru þeir algjörir lykilmenn í liði KA sem er í toppbaráttu efstu deildar í sumar auk þess að vera komið áfram í Mjólkurbikarnum“, segir í tilkynningu á vef KA.

Bræðurnir eru uppaldir í Völsung á Húsavík en gengu báðir ungir til liðs við KA. Hallgrímur gekk til liðs við KA 18 ára gamall og Hrannar 21 árs.

Hallgrímur Mar verður 31 árs á árinu en hann er leikjahæsti leikmaður í sögu KA. Hann hefur leikið 238 leiki fyrir félagið í deild og bikar. Þar að auki er hann markahæsti leikmaður KA í efstu deild með 31 mark.

Hrannar Björn er 29 ára gamall og hefur leikið 156 leiki fyrir KA í deild og bikar.

Í tilkynningu KA segir að bræðurnir „hafa heldur betur reynst félaginu vel hvort sem er innan sem utan vallar og eru það því frábærar fréttir að halda þeim áfram innan okkar raða“. 


UMMÆLI

Sambíó