Akureyringurinn Gunnlaugur Víðir Guðmundsson hlaut í gærmorgun hvatningarverðlaun gegn einelti. Gunnlaugur er forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Gleðibankans í Reykjavík og hefur lagt sig fram af miklum krafti að draga úr einelti og samskiptaerfiðleikum ungs fólks.
„Ég ætla ekkert að þykjast vera hógvær, ég er mjög stoltur af þessari viðurkenningu en þetta er auðvitað fyrst og fremst viðurkenning á hugmynda- og aðferðafræðina sem við notumst við í félagsmiðstöðvunum. Við bregðumst við og hjálpum einstaklingum í hópastarfi og þó svo að það sé ánægjulegt að fá viðurkenningu sem einstaklingur þá er tilgangurinn með þessum verðlaunum að vekja athygli á málaflokknum og lausnum,“ segir Gunnlaugur Víðir í samtali við Kaffið.
Gunnlaugur var forstöðumaður hjá Félagsmiðstöðvum Akureyrarbæjar í 12 ár áður en hann flutti til Reykjavíkur. Síðastliðið vor var þrettán starfsmönnum Félagsmiðstöðva Akureyrarbæjar sagt upp og bæjaryfirvöld færðu rekstur félagsmiðstöðvanna undir skóla bæjarins. Gunnlaugur segir ákvörðunina sorglega.
„Við erum með lausnir gegn einelti, sem liggja í hugmyndafræði félagsmiðstöðva, sem Akureyrarbær hefur ákveðið að yfirgefa. Það er sorgleg þróun. Ég er mjög stoltur Akureyringur og stoltur af þeirri vinnu sem við unnum þar og uppbyggingunni sem hafði átt sér stað í starfi Félagsmiðstöðva Akureyrarbæjar og þessi verðlaun eru afrakstur af því starfi. Það undirstrikar enn frekar hversu sorglegt það er að horfa á allt það starf hverfa frá bænum.“
Hvatningarverðlaun gegn einelti eru verðlaun Heimilis og Skóla sem eru veitt árlega. Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla segir að Gunnlaugur hafi verið valinn einróma af dómnefnd og að hann sé að standa sig frábærlega í sínu starfi.


COMMENTS