Hættum þessu helvítis væli

Óðinn Svan skrifar

Óðinn Svan skrifar

Nú er stutt í kosningar og mikil umræða um íslenskt samfélag og innviði þess. Af umræðunni að dæma þá búum við Íslendingar í fátæku þriðja heims ríki þar sem allt er ónýtt. Heilbrigðiskerfið er í molum, annar hver maður á ekki fyrir mat, vegakerfið er ónýtt, gamla fólkið býr við ömurleg kjör og menntakerfið er drasl. Margir tala um að endurreisa þurfi Ísland, semja nýja stjórnarskrá og byrja uppá nýtt.

En er þetta svona slæmt? Skoðum aðeins staðreyndir og tölfræði sem ættu að gefa betri mynd af því hvernig lífsgæði okkar eru í raun og veru.

– Menntunarstig Íslands er 5.9 (á skalanum 1 til 7) eða það 11. hæsta í heimi.

– Atvinnuleysi á Íslandi er 2.9% sem er með því minnsta sem þekkist í heiminum.

– Kaupmáttur er 137.2 stig og hefur aldrei verið hærri.

Hamingjustuðull Íslendinga er 9,6 stig (af 10 skv. OECD Better Life Index) eða sá næst hæsti innan ríkja OECD.

Fjöldi hjúkrunarfræðinga á Íslandi er 15,5 á hverja 1.000 íbúa, 4. hæsta innan OECD þar sem meðaltalið er 9,1.

– Fátækt á Íslandi er 4.6 prósent, lægsta hlutfall innan ríkja OECD.

– 78% Íslendinga búa í eigin húsnæði sem er hæsta hlutfall innan Norðurlanda. T.d. er hlutfallið 39% í Svíþjóð.

– Fátækt meðal eldri borgara er 3%, það 4. lægsta innan ríkja OECD þar sem meðaltalið er 12.6%.

– Atvinnuþátttaka eldra fólks á Íslandi er 82% eða lang hæst innan OECD þar sem meðaltalið er 44%.

– Jafnrétti kynjanna er mest í heimi 7 ár í röð á Íslandi skv. Globa Gender Gap Index World Economic Forum.

– Ísland er 2. umhverfisvænasta þjóð heims skv. EPI staðli.

Auðvitað er það eðlilegt að í aðdraganda kosninga sé umræðan um það sem það almenningur vill bæta í samfélaginu. Ég held hins vegar að við komumst lítið áfram ef umræðan einkennist af því að mála allt svart. Tal um að allt sé svo slæmt heima á Íslandi er bara kjaftæði. Hættum að mála skrattann a vegginn og förum að gera okkur grein fyrir því hvað við höfum það gott.

UMMÆLI

Sambíó