Handverkshátíðin á Hrafnagili um helgina – Yfir 30 nýliðar í bland við fasta liðiFrá Handverkshátíðinni. Mynd: Feykir.is

Handverkshátíðin á Hrafnagili um helgina – Yfir 30 nýliðar í bland við fasta liði

Handverkshátíðin á Hrafnagili hefur fyrir löngu fest sig í sessi og er ein af elstu og fjölsóttustu sumarhátíðum á landinu. Hátíðin verður nú haldin í 27. sinn dagana 8.-11. ágúst næstkomandi. Handverksfólkið kemur víða að af landinu og má fullyrða að hver og einn sýnandi fái gott tækifæri til að kynna sig og sitt handverk á hátíðinni fyrir landsmönnum þar sem mikill fjöldi gesta sækir hana á ári hverju. Eitt af því sem skapar Handverkshátíðinni sérstöðu er hvernig samfélagið allt í Eyjafjarðarsveit leggst á eitt til að láta hátíðina verða að veruleika á ári hverju.

Mikill metnaður, elja og gleði þátttakenda einkennir hátíðina

Einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, Heiðdís Halla Bjarnardóttir, segir í samtali við Kaffið að markmið Handverkshátíðarinnar sé að fá sýnendur með fjölbreytt handverk á hátíðina til að sýna gestum þá miklu grósku, metnað og fagmennsku sem er í íslensku handverki. ,,Sýning af þessu tagi veitir gestum innblástur og innsýn í þróun handverks á sama tíma og hún kynnir og kveikir áhuga á hefðbundnum handverkshefðum. Það er mjög gleðilegt að sjá hversu mikinn metnað, elju og gleði þátttakendur setja í undirbúning og þáttöku á sýningunni,“ segir Heiðdís.

Ungmennafélagið, Slysavarnarsveitin, kvennfélögin, hestamannafélagið, Búsaga og Lionsklúbburinn svo einhverjir séu nefndir taka þátt í undibúningi, uppsetningu og vinnu kringum hátíðina sjálfa. Góð samvinna allra aðila tryggir að hátíðin er eins góð ár eftir ár og raun ber vitni.

Hreinn Halldórsson heiðursgestur hátíðarinnar

Heiðursgesturinn í ár er alþýðulistamaðurinn Hreinn Halldórsson. Hreinn skapar tréskúlptúra/styttur í frítíma sínum. Stytturnar bera sín nöfn og séreinkenni. Sum þeirra má rekja til íslenskra bókmennta og ævintýra en síðustu ár hefur listsköpunin snúið að sígildum ævintýrum. Von er á nýjum styttum frá Hreini sem ekki hafa verið sýndar áður og munu þær prýða útisvæðið.

Tréskúlptur eftir Hrein Hreinsson. Mynd: Margrét Þóra.

Einnig munum gestir fá að sjá og heyra heimasmíðaðan lírukassa, listasmiðja verður fyrir börnin, Miðaldahópurinn, Þjóðháttafélagið Handraðinn og Búsaga verða á sínum stað. Í bland við fasta liði verða um 30 nýliðar á svæðinu svo margt nýtt verður líka að sjá.
,,Handverkshátíðin er fyrir unga sem aldna og vonumst við til að vekja áhuga fólks á íslensku handverki og hönnun, auðga anda gesta okkar og að allir fari heim með góða og skemmtilega upplifun í farteskinu.“

Handverkshátíðin á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit er haldin 8.-11. ágúst 2019. Sýningin er opin alla dagana frá 11:00 – 18:00. Armbandið gildir alla dagana.

UMMÆLI

Sambíó