Háskóli allra landsmanna – HA fagnar 30 árum


Háskólinn á Akureyri fagnar 30 ára afmæli um helgina. Skólinn hóf starfsemi 5. september 1987 með kennslu á tveimur námsbrautum, hjúkrunarfræði og iðnrekstrarfræði. Skráðir nemendur hafa aldrei verið fleiri en á þessu haustmisseri eða tæplega 2.100 talsins.

Afmælisárið hefur einkennst af viðburðum sem allir hafa það að markmiði að tengja háskólann enn betur við samfélagið. Meðal annars hefur verið boðið upp á fjölbreyttar kynningar á vettvangi, opna fyrirlestra og alþjóðlegar ráðstefnur. Um síðustu helgi var hátíðarsalurinn til að mynda fullsetinn til að minnast alþýðuskáldsins Káins sem fæddist á Akureyri en flutti síðan til Vesturheims.

Dagskráin um komandi helgi er fjölbreytt. Hátíðardagskrá verður á sunnudag 3. september og í kjölfarið verður opið hús fyrir almenning þar sem boðið verður meðal annars upp á afmælisköku, kynningar, þrautir, slím og sprengjur.

Sjálfur afmælisdagurinn 5. september er í höndum nemenda en að lokinni keppni milli nemenda og starfsfólks verður blásið til umræðuþings um framtíðarsýn ungs fólks. Almenningi er velkomið að koma og hlýða á niðurstöður kl. 13.00 í hátíðarsal.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segist fagna því að afmælisviðburðirnir hafi verið vel sóttir og að markmiðið um betri tengingu við samfélagið hafi náðst. Einnig sé það fagnaðarefni að háskólinn sé fullsetinn á þessu afmælisári. „Margir voru efins um þá ákvörðun að stofna háskóla á Akureyri en með því góða starfsfólki sem hefur unnið við skólann frá upphafi hefur tekist að byggja upp fyrsta flokks háskólasamfélag sem sannarlega hefur náð til landsins alls,“ segir Eyjólfur að lokum.

Sambíó

UMMÆLI