Heiðbjört Ósk Ófeigsdóttir gaf nýverið út sína fyrstu bók sem ber heitið Mamma – sagan þín, ásamt Maríu Hólmgrímsdóttur og Sísí Sigurðardóttur. Bókin leiðir mæður í gegnum það ferli að skrifa eigin sögu, varðveita minningar og deila visku sinni með næstu kynslóð.
Heiðbjört er tveggja barna móðir og starfar sem grunnskólakennari á Akureyri. Hún segir mikilvægt að efla tengsl mæðra og barna eftir að börnin séu komin í fullorðinna manna tölu.
„Börn líta oftar en ekki á móður sína sem konu sem á að fæða, klæða, hugga, græja og gera. Þegar við eldumst kvikna spurningar eins og hver var móðir mín áður en hún varð móðir, hvaða drauma átti hún og þar fram eftir götunum. Mér fannst vanta bók á íslenskan bókamarkað sem væri vettvangur og leiðarvísir fyrir móðir til að segja barninu sínu söguna sína og styrkja tengslin við það um leið svo ég tók af skarið og skrifaði bókina Mamma – sagan þín,“ segir Heiðbjört við Kaffið.is.
Bókin inniheldur fjölmargar spurningar í bland við fróðleik og minningabrot frá mæðrum á borð við Katrínu Jakobsdóttur, Sesselju Barðdal, Ágústu Johnsson, Önnu Gunndísi Guðmundsdóttur og fleirum. Með því að fylla út bókina og færa barni sínu bókina að gjöf kynnist barnið móður sinni á nýjan hátt, skilningur þeirra á milli dýpkar og tengslin verða sterkari. Bókin verður þannig að fjársjóði fyrir afkomendur.
„Sögur allra mæðra skipta máli. Stundum þarf aðeins hvatningu til að segja þær og er þessi bók sú hvatning” segir Heiðbjört.
„Ég fékk þær Maríu Hólmgrímsdóttur og Sísí Sigurðardóttur til liðs við mig og úr varð lærdómsríkt, skapandi og skemmtilegt samstarf. Ég segi stundum að hugmyndin að bókinni kviknaði hjá mér en lifnaði við með réttum konum mér við hlið. Við höfum lært heilmikið af þessu bókaævintýri okkar þar sem að við höfum unnið alla vinnuna sjálfar, frá hugmynd að bók í búð.“


Heiðbjört og María stofnuðu norðlensku bókaútgáfuna Söguspor í kjölfar samstarfsins og bókin Mamma – sagan þín, er fyrsta bókin sem Söguspor gefur út.
„Bókin er einlæg og skemmtileg og það er mín ósk að þær mæður sem gefa sér tíma til að fylla hana út njóti ferðalagsins sem bókin hefur upp á að bjóða. Sem kennari veit ég hvað félagstengsli, samskipti og sjálfmynd skipta okkur gríðarlegu máli og er því með enn fleiri hugmyndir í kollinum af bókum sem styðja við þessi málefni,“ segir Heiðbjört.
Heiðbjört segir að tilgangur bókaútgáfunnar Söguspor sé að gefa út bækur sem gera heiminn örlítið betri.
„Það er að segja styrkja tengsl, sjálfsmynd og þar fram eftir götunum. Bókin Pabbi – sagan þín er í bígerð,“ segi Heiðbjört að lokum.
Hægt er að nálgast bókina inn á soguspor.is, í Pennanum, Sölku bókabúð, hjá Forlaginu og í Kistu á Akureyri.


COMMENTS