Heilbrigðisstofnun Norðurlands fær aukafjárveitingu upp á 130 milljónir króna

Heilbrigðisstofnun Norðurlands fær aukafjárveitingu upp á 130 milljónir króna

Heilbrigðisráðherra tilkynnti milli jóla og nýárs um 560 milljóna króna aukafjárveitingar til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni í ár. Mestu framlögin fara til heilbrigðisstofnunar Norðurlands, eða 130 milljónir króna.  Aukafjárveitingunni er fyrst og fremst ætlað að mæta halla á rekstri stofnananna sem að einhverju leyti stafar af veikleika í rekstri en megi einnig rekja til ófyrirséðra útgjalda, til dæmis vegna mönnunarvanda og veikinda starfsfólks sem kalli á meiri yfirvinnu og þar með aukinn kostnað.

Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, segir framlagið kærkomið í samtali við fréttastofu Rúv. Hann segir þetta framlag þurrka upp þann halla sem var væntanlegur á árinu og hefði líklega verið í kringum 60-80 milljónir. Í þeirra augum sé þetta því býsna gott framlag. Það breytir því þó ekki að fjármögnunarvandi er enn til staðar og erfitt verður samt sem áður að halda Heilbrigðisstofnun Norðurlands á núllinu þetta árið.

Í frétt Rúv um álið kemur fram að forstjórar heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni telja þessar aukafjárveitingu duga mislengi fyrir hverja stofnun. Gylfi Ólafsson, forstjóri heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir framlagið ekki duga til að loka rekstrarhalla stofnunarinnar. Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, segir framlagið hins vegar gera þeim kleift að loka fjárhagsáætlun næsta árs án hallareksturs. Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, forstjóri heilbrigðisstofnunar Vesturlands, segir í samtali við Rúv að aukafjárveitingin breyti miklu fyrir uppgjör síðasta árs, en óvissa ríki um 2019 og bendi reyndar til þess að endar nái ekki saman.

 

 

Sambíó

UMMÆLI