Heilbrigðisstofnun Norðurlands tekur tímabundið við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar

Heilbrigðisstofnun Norðurlands tekur tímabundið við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela Heilbrigðisstofnun Norðurlands að taka tímabundið við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar frá og með næstu áramótum.

Lagt er allt kapp á að undirbúa þessa breytingu vandlega þannig að íbúar og aðstandendur verði ekki fyrir óþægindum.

Akureyrarbær hefur rekið ÖA sem hluta af velferðarþjónustu sveitarfélagsins samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands fyrir hönd ríkisins. Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti fyrr á þessu ári að óska ekki eftir framlengingu á rekstrarsamningi sem rennur út 31. desember 2020.

Viðræður hafa undanfarna mánuði átt sér stað um rekstur hjúkrunarheimila á Akureyri þar sem megin áherslan hefur verið lögð á að standa vörð um gæði þjónustunnar og koma í veg fyrir óvissu á meðan unnið er að framtíðarskipan málaflokksins. Sú niðurstaða sem kynnt er í dag er mikilvægur liður í því. Á vegum heilbrigðisráðuneytisins er að hefjast vinna við úttekt á rekstri hjúkrunarheimila landsins og mun högun rekstrar til framtíðar taka mið af niðurstöðu þessarar úttektar.

Breytt rekstrarfyrirkomulag hefur í för með sér að frá og með 1. janúar næstkomandi færast á þriðja hundrað starfsmenn ÖA frá Akureyrarbæ til HSN, en réttindi og kjör þeirra haldast óbreytt samkvæmt kjarasamningum sem eru í gildi.

ÖA reka heimili fyrir um 180 íbúa á tveimur stöðum á Akureyri, í Hlíð og Lögmannshlíð. Þau hafa verið í fararbroddi í þróun og nýsköpun í öldrunarþjónustu með áherslu á aukinn sveigjanleika og að mæta mismunandi þörfum notenda. Allir sem að málinu koma eru sammála um mikilvægi þess að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið á Öldrunarheimilunum með það að leiðarljósi að veita áfram framúrskarandi þjónustu.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri:
„Við fögnum þessari niðurstöðu sem tryggir að mikilvæg þjónusta Öldrunarheimila Akureyrar skerðist ekki þegar núgildandi rekstrarsamningur rennur út. Það skiptir Akureyrarbæ öllu máli að hlúa vel að eldra fólki og í öldrunarþjónustu felast mikil tækifæri til nýsköpunar. Þessi tækifæri er nauðsynlegt að grípa og þróa þjónustuna áfram til framtíðar. HSN er algjör lykilstofnun í okkar samfélagi sem við treystum vel til verksins.“

María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands:
„Samstarf við Akureyrarbæ hefur alltaf verið gott en nú skilja leiðir á þessum vettvangi. Við erum mjög ánægð með að HSN taki að sér rekstur þessarar öflugu einingar og teljum gæðum og öryggi þjónustunnar vel borgið þar meðan unnið er að framtíðarskipulagi þessara mála.“

Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN:
„Öldrunarheimilin hafa verið þekkt fyrir nýsköpun og góða þjónustu við íbúana. Rekstur þeirra fellur vel að okkar starfsemi. Við teljum að við getum lært mikið af þeim og hlökkum til samstarfsins.“

UMMÆLI

Sambíó