Hjálpum þeim – Engar afsakanir lengur

Úff.

Ég hef alltaf einblínt á það þegar ég skrifa pistla eða eitthvað slíkt að segja eitthvað skemmtilegt. Ég hef alveg frekar sterkar skoðanir á vandamálum samfélagsins og heimsins en ég held því yfirleitt frá pistlaskrifum mínum. ,,Æji það er svo mikið af fólki að skrifa um þetta allt hvort sem er,“ hugsa ég með mér. Svo sit ég og les, gagnrýni þennan penna, þetta málefni, þessa pólitíkusa og fer nokkuð sátt að sofa. Núna verð ég að breyta aðeins til. Allavega í þetta eina skipti.

Úff. Það er eina orðið sem að lýsir þessu. Ég þurfti nefnilega að sitja fyrirlestur í dag í skólanum. Ég hafði alveg hugsað mér að reyna að lauma mér út fyrr enda alveg út í hött að þurfa að sitja í þrjár klukkustundir og þrjátíu mínútur að hlusta á einhvern mann tala. Það sem ég átti bágt.

Þegar tíminn svo byrjaði kom það í ljós að það var maður sem átti að tala. Maður að nafni Khattab Mohammad, sem að flutti til Akureyrar í janúar ásamt fjölskyldu sinni.
Hann er frá Sýrlandi. Um leið og ég heyrði hvaðan hann var þá kviknaði áhuginn örlítið, því að í allri hreinskilni sagt þá veit ég ekkert um Sýrland. Þrátt fyrir alla þá umfjöllun sem landið hefur fengið í kringum stríðið þá hefði ég ekki getað sagt ykkur neitt um Sýrland. Það er fullt af fólki að flýja landið vegna þess að það er stríð þar, var nokkurn veginn það eina sem markaði þekkingu mína á þessu landi. Það er virkilega skammarlegt að viðurkenna en ég ætla þvert á móti að þykjast vera einhver dýrlingur í þessum pistli.

Mohammad var enskukennari þegar hann bjó í Sýrlandi. Hann var fyndinn og eðlilegur þegar hann lýsti fyrir okkur landinu sínu fyrir stríð. Hann sýndi okkur myndir og myndbönd af menningunni, matnum, tónlistinni, brúðkaupum og öllum þessum eðlilegu þáttum þjóðfélags. Strax voru farnar að renna á mig tvær grímur. Er ég í alvörunni, allan þennan tíma, búin að ala með mér ómeðvitaða fordóma? Ég var búin að sjá þetta fyrir mér sem múslimaþjóð þar sem konur eru kúgaðar og Allah er tilbeðinn fram yfir öll velsæmismörk. Það sem ég vissi ekki var að Sýrland var fyrsta landið til að boða kristni og hún var ennþá eitt stærsta trúarbragðið í landinu fyrir stríð. Það sem ég vissi ekki var að Sýrland fann upp stafrófið. Það sem ég vissi ekki var að það er borg í Sýrlandi þar sem fólk talar ennþá tungumál Jesú Krists. Það sem ég vissi ekki var að öll þau neikvæðu myndbönd sem ég hef séð í fjölmiðlum um downloadflóttamannavandann og Sýrland hafa haft miklu meiri áhrif á skoðanir mínar en ég hafði nokkru sinni getað ímyndað mér.

Mohammad talaði lengi og vel um Sýrland fyrir 2011. En svo kom að 2011 og hann skipti alveg um blaðsíðu. Hann sýndi okkur í máli og myndum hvernig stríðið byrjaði og hvernig ástandið er í dag. Hann var með myndskeið frá venjulegu fólki sem er að taka upp þegar það er verið að skjóta á það. Myndskeið af litlum strák að öskra á reykský í leit að systrum sínum. Myndbönd sem að hafa ekki einu sinni ratað í fjölmiðla því að þau eru svo mörg.

Ég get fullyrt það að enginn var óhreyfður. Fólk starði beint áfram að berjast við að fara ekki að gráta. Þögnin þegar Mohammad var að reyna að herða sig og halda aftur tárunum meðan hann lýsti því hvernig samlandar hans voru myrtir í hundraðatali var óbærileg. Þegar hann var að þýða fyrir okkur harmakveinin frá lítilli stúlku sem var alblóðug í framan, nýskriðin úr rústum eftir nýjustu sprengjuna, hélt ég að honum yrði öllum lokið. Og mér eiginlega líka.

Sjaldan hef ég fundið til jafn mikillar samkenndar. Sjaldan hef ég skammast mín jafn mikið. Hef ég í alvörunni lesið það að við eigum ekki að taka við of mikið af flóttafólki því að við verðum að passa okkar menningu og hjálpa þeim sem erfitt eiga í landinu fyrir o.s.fv.
Erum við Í ALVÖRUNNI ekki að fara að bjóða fólki skjól sem er að berjast upp á líf og dauða?

Khattab Mohammad, fjölskyldan hans og aðrir mótmælendur.

Khattab Mohammad, fjölskyldan hans og aðrir mótmælendur á ráðhústorgi.

Við getum sagt að þetta hafi verið blaut tuska í andlitið á mér sem að vakti mig af verulega óværum fordómablundi. Djöfull sem ég þurfti á henni að halda. Það ættu allir að heyra frásögn þessa manns og prufa að setja sig í hans spor. Ég reyndi það í smástund og býð þess ekki bætur. Hvað ef þetta væri Ísland? Forréttindi mín hafa sjaldan verið augljósari.

Mohammad fékk nokkrar spurningar úr salnum eftir fyrirlesturinn. Einn spurði að því af hverju hann valdi Ísland og hvort að hann mundi fara aftur til Sýrlands ef að stríðinu myndi einhverntímann ljúka. Hann svaraði þessu svo einstaklega vel að ég hef gefið mér það bessaleyfi að endurtaka orð hans eftir minni bestu getu:
,,Of course I want to go back to Syria. It’s my home. I don’t want to be a refugee, I want to be in my country, where I have spent 45 years of my life. But I can’t.“

Engar afsakanir lengur. Ekkert: ,,ég er alveg til í að fá flóttamenn og hjálpa en….“
Það er ekkert en.

Khattab Mohammad og fjölskyldan hans hafa síðastliðna tvo laugardaga staðið fyrir friðsælum mótmælum gegn stríðinu. Vinir þeirra, nágrannar og fleiri hafa mætt þeim til stuðnings og samstöðu. Þau ætla að vera á Ráðhústorginu á Akureyri aftur á morgun kl.16-16.30 og hvet ég alla eindregið til þess að mæta og sýna þessu fólki stuðning og von.
Facebook síðu mótmælanna má finna hér 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó