HMS og Símenntun HA framlengja samstarf um rekstur BrunamálaskólansMynd: smha.is

HMS og Símenntun HA framlengja samstarf um rekstur Brunamálaskólans

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, og Símenntun Háskólans á Akureyri, SMHA, hafa undirritað áframhaldandi samning um samstarf, sem felur í sér áframhaldandi stuðning Símenntunar við rekstur og skipulag Brunamálaskólans. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Símenntunar Háskólans á Akureyri.

Þar segir að samstarfið hafi gefist afar vel og styrkt bæði aðgengi að námi og faglega umgjörð fræðslu slökkviliðsmanna um land allt.

Símenntun HA hefur aðstoðað HMS við kennslu-, námsumsjón og fjarnámslausnir Brunamálaskólans undanfarin ár, og hefur samstarfið verið talið bæði skilvirkt og farsælt. Með nýja samningnum staðfesta aðilar vilja sinn til að þróa verkefnið enn frekar og kanna möguleika á auknu samstarfi til framtíðar.

„Brunamálaskólinn fagnar áframhaldandi samstarfi við SMHA. Samstarfið styrkir tengsl náms slökkviliðsmanna við hið hefðbundna skólakerfi og nýtir dýrmæta reynslu Símenntunar af fjarkennslu og nemendastjórnun,“ segir Stefán Árnas­on, sérfræðingur hjá HMS.

„Það er mikilvægt að fagþróun og sérhæft nám á sviði brunamála standi jafnfætis öðrum símenntunartækifærum í landinu. Samstarfið við HMS hefur reynst afskaplega árangursríkt og við sjáum mikla möguleika í að þróa það enn frekar,“ segir Stefán Guðnason, forstöðumaður Símenntunar HA.

„Við erum afskaplega stolt af því að jafn öflug stofnun og HMS skuli velja okkur sem samstarfsaðila. Við sjáum skýran hag okkar beggja í því að efla starfsþróun stofnana með okkar einstöku fjarnámslausnum, og hlökkum til að byggja samstarfið enn frekar upp á komandi árum.“

Á myndinni má sjá þá Stefán Guðnason forstöðumann SMHA og Stefán Árnason sérfræðing hjá HMS handsala samstarfssamninginn.

COMMENTS