Félagarnir Hans Rúnar Snorrason og Bergmann Guðmundsson hafa þróað nýjan vef þar sem einstaklingar sem vilja læra íslensku geta fengið aðstoð „persónulegs einkakennara“. Hans og Bergmann eru báðir kennarar og eiga saman fyrirtækið Kunnátta ehf sem er árs gamalt fyrirtæki á Akureyri.
Hans og Bergmann hlutu í fyrra Hvatningarverðlaun íslensku menntaverðlaunanna fyrir framlag sitt til menntamála. Hans Rúnar segir að þau verðlaun hafi hvatt þá til dáða og til að gera meira og betur. Í dag séu þeir búnir að þróa vefinn https://studera.is/ sem er afrakstur vinnu þeirra síðastliðið rúmt ár.
„Við heyrum það nánast daglega í umræðunni: Fólk kvartar yfir því að afgreiðslufólk tali ekki íslensku. Kennarahjartað í okkur hefur oft sviðið þessi umræða því staðreyndin er sú að við höfum ekki boðið nýju íbúum okkar upp á raunhæf úrræði sem passa inn í nútímann. Hvernig átt þú að læra flókið tungumál ef eina leiðin er dýrt námskeið á kvöldin eftir langan vinnudag? Svo eru þau jafnvel ekki í boði mánuðum saman, til dæmis á sumrin,“ segir Hans Rúnar.
„Við ákváðum því nýta okkar reynslu til að gera eitthvað í málunum. Við höfum lagt gríðarlega mikinn tíma og fjármagn og byggt upp öfluga gervigreindarþjónustu til að búa til „persónulegan einkakennara“ sem er til staðar allan sólarhringinn.“
Kerfið hlustar á notandann tala, leiðréttir framburð og tekur hann í aðstæður þar sem hann þarf að svara á íslensku. Hans og Bergmann segjast trúa því að íslenskan sé lykillinn að samfélaginu og að þeir vilji gefa öllum tækifæri til að grípa þann lykil.


COMMENTS