Hollvinir SAk afhentu Sjúkrahúsinu gjöf að andvirði 12 milljónaVið afhendinguna í dag

Hollvinir SAk afhentu Sjúkrahúsinu gjöf að andvirði 12 milljóna

Hollvinasamtök SAk hafa reynst Sjúkrahúsinu á Akureyri afar vel frá stofnun þeirra fyrir fjórum árum síðan. Kl. 11 í dag afhentu samtökin sjúkrahúsinu gjöf á bráðamóttökunni að andvirði 12 milljón króna. Hollvinasamtökin hafa fjármagnað kaup á rúmlega 20 lækningatækjum síðustu ár og afhentu m.a. sjúkrahúsinu núna í febrúar glænýja ferðafóstru svo kallaða en ferðafóstra er ferðagjörgæsla fyrir nýbura sem þarf að flytja í sjúkrabílum, flugvélum eða þyrlum vegna mikilla veikinda og er bráðnauðsynlegur búnaður fyrir sjúkrahúsið. Þetta er eitt af kostnaðarsamari verkefnum samtakanna hingað til en ferðafóstran kostaði í kringum 30 milljónir.

Ómtæki fyrir bráðadeildina kemur til með að bjarga lífum

Gjöfin sem Hollvinir SAk afhentu bráðadeild sjúkrahússins í dag er sérstakt ómskoðunartæki sem gerir læknum kleift að flýta fyrir því ferli sem þarf að ganga í gegnum með hvern sjúkling sem kemur á slysadeildina með slæma eða minni áverka. Með þessu tæki er hægt að sjá á skemmri tíma hvort sjúklingur þurfi skurðaðgerð vegna innvortisáverka sem ellegar tekur lengri tíma að skera úr um. Þetta tæki er því ótrúlega mikilvægt fyrir starfsemi bráðamóttökunnar, sem og annarra deilda, en þetta er enn eitt tækið sem SAk fær að gjöf frá Hollvinum og er það besta sinnar tegundar á landinu. Tækið kostar í kringum 12 milljónir.

Fyrsta gjöfin af þremur til skurðdeildar

Jóhannes G. Bjarnason, formaður samtakanna, segir í samtali við Kaffið að þetta sé fyrsta gjöfin af þremur sem samtökin stefna að styrkja skurðdeildina um. Hann segir jafnframt að öll þessi tæki hafi ekki einungis þann kost að bjarga mannslífum heldur laði þau líka færa lækna víða sem vilja koma norður og prufa að vinna með þau.

„Þetta tæki getur dregið lækna víða að og við erum mjög stolt af þessu verkefni, sem á svo eftir að verða stærra, enda bara fyrsti liðurinn af þremur. Þetta eru meira og minna tæki sem geta bjargað mannslífum, t.a.m. er þegar búið að nota Ferðafóstruna einu sinni til björgunar. Maður er þokkalega sáttur að koma að svoleiðis viðburði,“ segir Jóhannes.

Hollvinir SAk eru frjáls félagasamtök sem hafa það markmið að stuðla að bættum lækningatækjaútbúnaði á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ef þú vilt leggja þessu frábæra málefni lið getur þú gerst meðlimur með að ýta hér. 

UMMÆLI