Hrúturinn 2020 í Hofi á fimmtudaginn

Hrúturinn 2020 í Hofi á fimmtudaginn

Fimmtudaginn 5. mars verður haldið málþing í Hofi undir yfirskriftinni „Karlar og krabbamein“. Málþingið er hluti af árveknisátaki sem Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis (KAON) stendur fyrir í samvinnu við Akureyrarstofu og Krabbameinsfélag Íslands.

Öllum opið og enginn aðgangseyrir

Dagskráin hefst kl. 16 með fræðslu og heilsufarsmælingum. Þar verður meðal annars hægt að þukla gervipung og leita að meini. Málþingið sjálft hefst í Hömrum kl. 17. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, flytur opnunarávarp og Sólmundur Hólm fer með gamanmál. Erindi á málþinginu flytja Guðmundur Otti Einarsson, sérfræðingur í almennum lyflækningum, Þorgnýr Dýrfjörð, heimspekingur, Birkir Baldvinsson og Sigrún Elva Einarsdóttir, sérfræðingur í fræðslu og forvörnum. Fundarstjóri verður Friðbjörn Reynir Sigurðsson, lyf- og krabbameinslæknir. Málþingið er öllum opið og er enginn aðgangseyrir.

Fyrirtæki hvött til að taka þátt í ,,Aur fyrir eista“

Í tengslum við átakið fer fram áheitasöfnun sem kölluð er Aur fyrir eista. Upphafsmenn söfnunarinnar eru starfsmenn Fasteignasölu Akureyrar sem óskuðu eftir því að fá að styrkja félagið um ákveðna upphæð fyrir hvert eista hjá fyrirtækinu og skora þeir á önnur fyrirtæki að gera slíkt hið sama í tilefni af Hrútnum. Annað árið í röð hefur JMJ látið sauma sérstaka Hrútaklúta sem seldir eru í verslun JMJ og verða ennfremur til sölu á málþinginu í Hofi 5. mars. Allur ágóði af sölu þeirra rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Þeir sem vilja panta klúta til að gefa starfsmönnum sínum eða nota á annan hátt geta sent tölvupóst á netfangið kaon@krabb.is.

Hrúturinn er táknmynd fyrir karlmann sem á yfirborðinu er hrjúfur og tignarlegur en undir niðri er mjúku hliðina að finna. Hvað gerir karlmaður sem greinist með lífsógnandi sjúkdóm? Hvernig geta félagarnir stutt við hann? Hver eru helstu einkenni krabbameina í körlum?

Allar nánari upplýsingar um árveknisátakið er að finna á heimasíðunni www.hruturinn.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó