Hundrað nemendur brautskráðir frá VMA í gær

Frá brautskráningu VMA í gær. Mynd: vma.is.

Eitthundrað nemendur brautskráðust frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi í gær.

Nemendur brautskráðust af sautján námsleiðum eða brautum. Síðastliðið vor brautskráðust 137 nemendur frá skólanum og því hefur VMA brautskráð samtals 237 nemendur á þessu ári. Samtals voru prófskírteininin 106 því nokkrir nemendur brautskráðust bæði úr sinni iðngrein og einnig með stúdentspróf.

Meirihluti nemenda sem lauk námi með formlegum hætti frá VMA í dag brautskráðist samkvæmt eldri námsskrá. Frá og með næsta vori mun þeim nemendum fjölga verulega sem útskrifast samkvæmt nýrri námsskrá.
Í gær útskrifaðist þó fyrsti nemandinn í VMA samkvæmt nýrri námskrá en náminu lauk hann á tveimur og hálfu ári.

Brautskráninguna önnuðust Ómar Kristinsson sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og sjúkraliðanáms og Baldvin Ringsted sviðsstjóri verk- og fjarnáms.

Eftirfarandi nemendur hlutu ýmsar viðurkenningar á hátíðinni:

Sigþór Gunnar Jónsson nýstúdent – verðlaun fyrir bestan árangur í samfélagsgreinum, veitt úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar. Jafnframt hlaut Sigþór verðlaun fyrir bestan námsárangur í íslensku. Penninn Eymundsson gaf verðlaunin.

Lísa María Ragnarsdóttir sjúkraliði – verðlaun fyrir bestan árangur á sjúkraliðabraut, gefin af Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Áslaug Sólveig Guðmundsdóttir matartæknir – verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum matartækna, gefin af Matsmiðjunni.

Yrja Mai Hoang, nýstúdent af náttúrfræðibraut – verðlaun fyrir bestan árangur í ensku, gefin af SBA-Norðurleið.

Axel Frans Gústafsson, nýstúdent af listnámsbraut – verðlaun fyrir bestan árangur af myndlistargreinum listnámsbrautar, gefin af Slippfélaginu.

Viktoría Zamora, nýstúdent af listnámsbraut – verðlaun fyrir bestan árangur í hönnunar- og textílgreinum, gefin af Kvennasambandi Eyjafjarðar.

Sara Rós Guðmundsdóttir, nýstúdent af náttúrufræðibraut – verðlaun fyrir bestan árangur í efnafræði, gefin af Efnafræðifélagi Íslands

Björn Vilhelm Ólafsson, nýstúdent af náttúrufræðibraut – bókarverðlaun fyrir bestan árangur í raungreinum og stærðfræði, gefin af Háskólanum í Reykjavík. Jafnframt veitti HR verðlaunahafanum nýnemastyrk og niðurfellingu á skólagjöldum á fyrstu önn kjósi hann að hefja nám við HR.
Björn Vilhelm fékk jafnframt blómvönd frá skólanum í tilefni þess að vera fyrsti stúdentinn sem útskrifaðist samkvæmt nýrri námsskrá við skólann.

Sunneva Halldórsdóttir, nýstúdent af náttúrufræðibraut – hvatningarverðlaun VMA, veitt nemanda sem hefur verið fyrirmynd í námi, sýnt miklar framfarir í námi, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt.
Sunneva hefur verið fyrirmynd annarra í námi og sýnt mikinn dugnað og elju til að ná markmiðum sínum. Með góðu skipulagi frá því í grunnskóla hefur hún stefnt að því að ljúka stúdentsprófi á skemmri tíma en fjórum árum. Sunneva lauk stúdentsprófinu á fimm önnum í stað átta, með því að nýta sér fjarnám og sveigjanleikann í VMA.

Andri Björn Sveinsson – verðlaun fyrir bestan árangur í rafvirkjun, gefin af Rönning.

Jóhannes Sefánsson – verðlaun úr Árnasjóði fyrir bestan árangur á sveinsprófi í rafeindavirkjun. Jafnframt fékk Jóhannes verðlaun frá Ískraft fyrir bestan árangur í faggreinum í rafeindavirkjun og verðlaun frá A4 fyrir að vera dúx skólans.
Árnasjóður er minningarsjóður stofnaður af starfsmönnum VMA til minninar um Árna Jóhannsson kennara við VMA sem lést langt um aldur fram í lok árs 2014. Hann var rafeindavirki og kennslugreinar hans voru rafiðngreinar og stærðfræði. Samkennarar Árna ákváðu að sjóðurinn myndi veita verðlaun til nemanda sem næði bestum námsárangri á sveinsprófi í rafeindavirkjun.
Úr Árnasjóði var í fyrsta skipti úthlutað í gær. Systkini Árna færðu skólanum á árinu minningargjöf sem nýtt var til tækjakaupa í rafiðn. VMA færir fjölskyldu Árna þakkir fyrir hlýhug til skólans.

Alexander Freyr SimmAndrea Ósk MargrétardóttirEinar Örn GíslasonSara Rós Guðmundsdóttir  og Victoría Rachel Zamora – blómvendir frá VMA fyrir drjúgan hlut þeirra að félagslífi í skólanum

Jóhannes Stefánsson og Bjarki Guðjónsson, Íslandsmeistarar í rafeindavirkjun –  blómvendir frá VMA fyrir Íslandsmeistaratitilinn

Tekið af heimasíðu VMA.

Sambíó

UMMÆLI