Hvorki viðbragðsteymi né sjúkrabíll á Ólafsfirði

Sjúkrabílavakt á Ólafsfirði var lögð niður í fyrra sumar og enn hefur ekkert viðbragðsteymi verið sett saman.

Bakvakt fyrir sjúkraflutninga á Ólafsfirði var lögð af í fyrra og hefur enginn sjúkrabíll verið á staðnum frá því í sumar og viðbragðsteymi sem átti að leysa af sjúkravaktina hefur ekki enn verið sett saman. Frá því í sumar hefur útköllum verið sinnt frá Siglufirði og Dalvík, en viðbragðsteymi sjálfboðaliða átti að mynda til þess að veita fyrstu hjálp í neyðartilfellum.

Í september í fyrra sagði Jón Helgi Björnsson, formaður Heilbrigðisstofnunar Norðurlands að verið væri að setja teymið saman, sem hefur ekki verið gert enn. Hann segir þá að fólk hafi lýst áhuga á að vera í teyminu en að málið sé flókið og það taki tíma að komast niðurstöðu. „Við viljum náttúrulega að það gerist sem fyrst, en auðvitað erum við að vonast til þess að þetta verði orðið klárt núna í vor,“ segir Jón Helgi. Hann viðurkennir að heppilegra hefði verið ef viðbragðsteymið hefði verið sett saman áður en sjúkrabílavaktin fór.

Málið hefur verið umdeilt og heimamenn hafa mótmælt þessari ákvörðun síðan sjúkrabílavaktin var lögð niður. Bæjarráð Fjallabyrggðar hefur boðað Jón Helga á fund í vikunni til þess að fara yfir stöðu málsins, en formaður bæjarráðs Fjallabyggðar segir óábyrgt að lagt hafi verið niður sjúkraflutningavakt á Ólafsfirði áður en viðbragðsteymi var sett saman.

Sambíó

UMMÆLI