Íbúar í Naustahverfi brjálaðir vegna breytingartillögu – ,,Ég vil ekki ógæfufólk sem getur stafað hætta af í hverfið“

Naustahverfi er vinsælt hverfi fyrir fjölskyldufólk.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar auglýsti nú í febrúar breytingartillögu á deiliskipulagi í Naustahverfi. 
Skipulagsbreytingin nær til lóða við Margrétarhaga og Nonnahaga. Tillagan gerir m.a. ráð fyrir að einbýlishúsalóðunum við Margrétarhaga 14-18 og við Nonnahaga 6-10 verði breytt í raðhúsalóðir. Lóðir við Nonnahaga 1-3 verða sameinaðar í fjölbýlishúsalóð fyrir þjónustukjarna fyrir fatlaða og á Nonnahaga 5 verður heimilt að hafa þrjú lítil íbúðarhús. Lóðir nr. 7-21 við Nonnahaga minnka og fjölgar þar um eina einbýlishúsalóð.

Ónæði, ógn og hætta getur stafað af fólki með fjölþættan vanda
Með þessu nýja skipulagi stendur sumsé til að setja þjónustukjarna fyrir fatlaða og smáhúsaþyrpingu fyrir fólk með fjölþættan vanda, s.s. vímuefna- og áfengisvanda. Þetta var tekið fyrir á fundi skipulagsráðs þar sem Baldvin Valdemarsson lýsir áhyggjum sínum að bærinn sé ekki á réttri leið með þessa skipulagsbreytingu.

„Þetta varðar mjög viðkvæman hóp í okkar samfélagi sem við þurfum að halda utan um sinna en ég geri hins vegar athugasemd um hvort að bærinn sé á réttri leið með þessa lausn sem þarna er í spilunum. Þarna er verið að tala um hóp, eins og honum er lýst; Einstaklingar sem ekki er talið forsvaranlegt að hafa í venjulegum fjölbýlishúsum. Ástæðan er ónæði, ógn og hætta sem nágrönnum getur stafað af þessu fólki svo sem vegna hávaða, óþrifa, hættu á íkveikju eða annars konar skemmdum,“ segir Baldvin Valdemarsson, bæjarfulltrúi á fundinum.

Vilja alls ekki fá þessa þyrpingu í hverfið innan um fjölskyldur
Í facebook-hóp sem íbúar í Naustahverfi halda úti lýsa þeir áhyggjum sínum vegna breytingarinnar. Naustahverfi er fjölskyldu- og barnvænt hverfi og telja þau þetta ekki vera í lagi. Þá finnst þeim einnig fáránlegt að setja fatlaða og fólk með fjölþættan vanda undir sama hatt. Það sé ekki ásættanlegt að hafa fólk sem stafar hætta af í næsta nágrenni við fjölskyldur sem búa þarna rétt hjá.

,,Ég sem íbúi í Brekatúni og hef fest kaup á Nonnahaga 2, mun mótmæla þessu harðlega því þetta er algjör forsendubrestur, bæði fyrir mig sem kaupanda beint á móti og eins vil ég ekki fá þessa þyrpingu í hverfið okkar sem á að heita fjölskyldu- og barnvænt,“ er haft eftir einum íbúa í Naustahverfi. 

Íbúar í Naustahverfi mótmæla harðlega
Íbúar í Naustahverfi ætla sér að mótmæla þessari tillögu harðlega og á sama tíma reyna að finna aðra lausn sem allir geta sætt sig við. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna rennur út kl. 16:00 miðvikudaginn 28. mars 2018 og skal athugasemdum skilað skriflega til Skipulagssviðs Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 3. hæð eða með tölvupósti (skipulagssvid@akureyri.is) þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram.
Íbúar vilja alls ekki fá þyrpinguna inn í hverfið en gera sér grein fyrir því að einhversstaðar þarf þetta fólk þó að vera. Fólk hefur tjáð í athugasemdum við færsluna margar tillögur um betri staðsetningar á þessum kjarna þar sem ekki væri hætta á ónæði eða ógn við fjölskyldufólk.

Hægt er að horfa á fund skipulagsráðs í heild sinni hér að neðan:

 

Sambíó

UMMÆLI