NTC netdagar

Ísland í öðru sæti á HM um helgina

Ísland í öðru sæti á HM um helgina

Síðasti leikur heimsmeistaramótsins í íshokkí kvenna var haldinn á laugardaginn. Mótið, sem er í 2. deild í b-riðli, hefur verið í gangi sl. viku í skautahöllinni á Akureyri. Fjöldinn allur af afreksíshokkíkonum frá Úkraínu, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Tyrklandi og Króatíu komu til Akureyrar og kepptu um heimsmeistaratitilinn. Fjölmenni hefur verið alla vikuna að fylgjast með harðri keppni landanna en áhorfendur voru um 400 á hverjum leik íslenska liðsins. Mikil stemning skapaðist í Skautahöllinni á Akureyri og ánægjulegt að sjá þann áhuga sem mótið vakti.

Íslensku stelpurnar agaðar og skipulagðar í sínum leikjum

Íslenska liðið endaði mótið með auðveldum sigri gegn Úkraínu á laugardaginn en leiknum lauk 6-0. Ísland endaði þannig í öðru sæti en Ástralía tók heimsmeistaratitilinn. Nýja Sjáland endaði í þriðja sæti.

Í umsögn Skautafélagsins um mótið segir að mótið teljist nokkuð sérkennilegt. ,,Eitt tap á móti Ástralíu í fyrsta leik og svo fjórir til þess að gera auðveldir sigrar, en marka hlutfallið í síðustu fjórum leikjunum var 23 á móti 1. Það er alveg ljóst að íslenska liðið á heima í deildinni fyrir ofan og verður það markmið næsta móts. Stelpurnar stóðu sig gríðarlega vel, voru agaðar og skipulagðar í sínum leik og geta verið stoltar af sinni frammstöðu á mótinu – íþróttinni, landi og þjóð til sóma. Áfram Ísland og áfram íslenskt kvennahokkí!“

Í lok leiksins voru veittar nokkrar viðurkenningar. Saga Blöndal var valin maður leiksins, Sunna Björgvinsdóttir besti leikmaður Íslands á mótinu og Silvía Björgvinsdóttir besti sóknarmaður mótsins. Besti markmaður mótsins og besti varnarmaður komu frá Ástralíu.

UMMÆLI