Íslandsmót í listhlaupi á skautum: 11 af 16 keppendum SA lentu á palli

Íslandsmót ÍSS var haldið í skautahöllinni í Laugardal um helgina þar sem að keppendur frá Skautafélagi Reykjavíkur, Skautafélaginu Birninum og Skautafélagi Akureyrar tóku þátt.

Marta María Jóhannsdóttir, sigurvegari í Stúlknaflokki A. Mynd: ÍSS

Marta María Jóhannsdóttir, sigurvegari í Stúlknaflokki A.
Mynd: ÍSS

Það má með sanni segja að Skautafélag Akureyrar komi heim með vinningin ef marka má úrslit helgarinnar. Þá voru alls 16 stúlkur sem kepptu frá félaginu og 11 þeirra höfnuðu í verðlaunasætum.
Þar af voru 6 keppendur í fyrsta sæti, þrír í öðru sæti og tveir í þriðja sæti.

Í keppnisflokknum 8 ára og yngri A tók Sara Kristín Pedersen 1.sætið með stæl, en hún er eini keppandinn á sínum aldri sem að uppfyllir kröfur A-flokks og keppti því einsömul í þetta skiptið.

Í keppni 10 ára og yngri A lenti Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir í 1.sæti eftir flott og vel framkvæmt prógramm.

Verðlaunaafhending í Stúlknaflokki A. Mynd: ÍSS

Verðlaunaafhending í Stúlknaflokki A.
Mynd: ÍSS

Í stúlknaflokki A tóku SA stelpurnar þetta alla leið og lögðu undir sig verðlaunapallinn. Marta María Jóhannsdóttir hafnaði þar í 1.sæti, eins og oft áður en Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir fylgdi fast í hæla hennar í 2.sætið. Þess má geta að það munaði ekki mörgum stigum milli þeirra vinkvenna eftir stutta prógrammið á laugardeginum en stigamunurinn stækkaði aðeins eftir frjálsa prógrammið á sunnudeginum. En eins og listhlaupaáhugamönnum er kunnugt keppa eldri flokkar með tvö prógrömm, stutt og langt. Þess má geta að Aldís Kara Bergsdóttir var staðsett í fjórða sæti eftir stutta prógrammið á laugardeginum en vann sig upp í þriðja sætið með frjálsa prógramminu á sunnudeginum.

Í keppnisflokki 8 ára og yngri B lenti Sædís Heba Guðmundsdóttir í 2.sæti en hún var eina stúlkan í þessum flokki frá Skautafélagi Akureyrar.
Í 10 ára og yngri B var það Katrín Sól Þórhallsdóttir frá SA sem sigraði flokkinn með nokkuð öruggum sigri. Einnig voru tveir keppendur frá SA til viðbótar, þær Kristbjörg Eva Magnadóttir og Eva María Hjörleifsdóttir, sem ekki lentu í sæti en stóðu sig þó vel.

Verðlaunaafhending 12 ára og yngri B. Mynd: ÍSS

Verðlaunaafhending 12 ára og yngri B.
Mynd: ÍSS

Í keppnisflokki 12 ára og yngri B átti Skautafélag Akureyrar fjóra keppendur sem að tóku einnig að sér fyrstu fjögur sætin. Það voru þær Júlía Rós Viðarsdóttir í 1.sæti, Kolfinna Ýr Birgisdóttir í 2.sæti, Telma Marý Arinbjarnardóttir í 3.sæti og Bríet Berndsen Ingvadóttir í 4.sæti.

Í Unglingaflokki B var það hún Eva Björg Halldórsdóttir sem að hafnaði í 1.sæti með góðan fjölda stiga. Í unglingaflokki A var hörð samkeppni um sætin en þetta er erfiðasti keppnisflokkurinn á Íslandi. Þar keppti Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir ein síns liðs frá Akureyri en hafnaði ekki á verðlaunapalli.

Þetta verður að teljast sem stórkostlegur árangur hjá Skautafélagi Akureyrar en Íslandsmótið er jafnframt eitt fjölmennasta mót í listhlaupi á landinu. Það sem einkenndi mótið var hörð samkeppni milli keppenda þar sem ekkert var gefið eftir. Það mátti oft svo litlu muna í stigafjölda að óvíst var hvernig þetta allt saman færi á endanum.
Það er þó alltaf gaman að sjá að vinskapurinn er aldrei langt undan í þessari fámennu íþrótt og virkilega gaman að horfa á mót sem þessi. Það væri óskandi að fleiri landsmenn gæfu sér tíma í að prufa að horfa á listhlaup á skautum, það er nokkuð víst að það kæmi flestum á óvart hvað þetta er rosalega flott og hversu mikill árangur hefur náðst í íþróttinni á síðastliðnum árum.

Kaffið óskar keppendum mótsins innilega til hamingju með árangurinn!

Sambíó

UMMÆLI