Íþróttakonur- og menn hjá Kraftlyftingarfélagi Akureyrar ná gríðarlegum árangri á mótum erlendis og hérlendis

Björk Óðinsdóttir bætti sitt persónulega met, keppnis- og Íslandsmet á HM í nóvember.

Íþróttafólk innan KFA hafa náð sögulegum árangri í lyftingum á Íslandi en nú í lok nóvember varð Björk Óðinsdóttir fyrsta konan frá Akureyri til þess að keppa á Heimsmeistaramóti í Ólympískum lyftingum. Björk, sem var að keppa í fyrsta skipti á mótinu, bætti tvö Íslandsmet með lyftum sínum ásamt því að bæta Íslandsmet í samanlögðum árangri. Björk var valin Lyftingakona KFA 2017.

Viktor Samúelsson hefur slegið 249 Íslandsmet á sínum ferli.

Viktor Samúelsson er einn farsælasti lyftingamaður Íslands frá upphafi en hann hefur þegar slegið 249 Íslandsmet á ferli sínum og 34 þeirra standa enn þann dag í dag. Hann keppti á þremur alþjóðlegum mótum í ár og varð Íslandsmeistari á stigum. Hann er jafnframt stigahæsti kraflyftingamaður ársins með 597.79 wilks en wilks er stuðull sem notaður er til þess að bera saman styrk kraftlyftingamanna í keppnum. Auk þess hefur Viktor slegið 13 norðurlandamet og fimm þeirra hafa ekki enn verið slegin út. Viktor var valinn Kraftlyftingamaður KFA 2017.

Það er óhætt að segja að Kraftlyftingafélag Akureyrar er að gera góða hluti og upptalning á ungum og efnilegum íþróttamönnum innan raða þeirra gæti haldið lengi áfram. Grétar Skúli Gunnarsson, formaður KFA, er ánægður með íþróttafólkið sitt og er vongóður um að þau verði tilnefnd til Íþróttamanns- og konu Akureyrar 2017 og örugglega fleiri úr félaginu einnig.

Greinin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi.

Sambíó

UMMÆLI